„Veiran eins og boðflenna, hún er búin að brjóta allt og bramla hjá okkur og hún neitar að fara. Við getum ekki hent henni út, alla vega ekki einn, tveir og tíu. Það er eðlilegt að við þreytumst,“ sagði Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir, sérfræðingur hjá almannavörnum, á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Hún fjallaði um úthald og seiglu í faraldrinum í kjölfari þess að Alma D. Möller landlæknir ræddi um farsóttarþreytu.
Ingibjörg skilgreindi seiglu sem færni til að takast á við óvænta atburði og halda áfram við líf okkar. Stundum gangi slíkir atburðir hratt yfir, eins og jarðskjálftinn í fyrradag, og stundum taka þeir lengri tíma, eins og í tilviki kórónuveirufaraldursins.
„Við erum komin svolítið langt út fyrir okkar hefðbundnu tilveru þegar hugtök eins og brúðkaup, ferðalög og afmælisveislur geta kallað fram áhyggjur og kvíða í stað þess að kalla fram ánægju. Þessar takmarkanir raska okkar daglega lífi,“ sagði Ingibjörg.
Hún telur eðlilegt að fólk sé ekki alltaf sátt við þær aðgerðir sem settar séu á en við séum stödd saman í þessum aðstæðum.
„Við eigum það sameiginlegt að vilja halda áfram með okkar daglega líf og lágmarka hættu á smiti,“ sagði Ingibjörg.
Hún sagði að það væri mikilvægt að fólk ræktaði baklandið sitt á þessum tímum og hlúði að hvort öðru. „Þetta gengur betur ef við gerum þetta saman.“