Fyrrverandi forstjóri Matís sýknaður af ákæru um heimaslátrun

Sveinn Margeirsson fyrrverandi forstjóri Matís og núverandi sveitarstjóri Skútustaðahrepps.
Sveinn Margeirsson fyrrverandi forstjóri Matís og núverandi sveitarstjóri Skútustaðahrepps.

Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps og fyrrverandi forstjóri Matís, hefur verið sýknaður af ákæru um brot gegn lögum um slátrun og sláturafurðir með því að hafa staðið að sölu og dreifingu á fersku lambakjöti af grip­um sem hafði verið slátrað utan lög­gilts slát­ur­húss. Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Norðurlands vestra sem féll fyrr í vikunni.

Málið á rætur sínar að rekja til þess að í september árið 2018 fór fram bænda­markaður á Hofsósi í Skagaf­irði. Var þar meðal ann­ars selt kjöt frá bæn­um Birki­hlíð, en lömb­um hafði verið slátrað í sam­starfi við Matís og var það gert í sam­ræmi við verklag sem Matís hafði lagt til að gilti um ör­slát­ur­hús.

Hafði Matís skoðað mögu­leik­ann á slíkri slátrun í tengsl­um við verk­efni sem miða að því að koma land­búnaðar­vör­um frá fram­leiðend­um til neyt­enda með bein­um hætti, en slíkt geng­ur jafn­an und­ir nafn­inu beint frá býli.

Sveinn stóð meðal ann­ars að söl­unni á markaðinum og sagðist hann í sam­tali við Bænda­blaðið ekki hafa sér­staka skoðun á því hvort Matís hefði vís­vit­andi brotið lög með at­hæf­inu, en sam­kvæmt lög­um verður slátrun að fara fram á viður­kenndu slát­ur­húsi. Varð þetta til þess að Mat­væla­stofn­un (MAST) til­kynnti um inn­köll­un á kjöt­inu og óskaði síðar eft­ir því að lög­regl­an myndi rann­saka málið. Var Sveinn svo ákærður í október í fyrra, en við þingfestingu málsins lýsti hann sig saklausan.

Framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra bar fyrir dómi að reglur um heimaslátrun hafi verið að liðkast í gegnum tíðina. Verkefnið á Hofsósi hafi verið kynnt sér af starfsmanni Matís og hann greint frá því að aðkoma eftirlitsins yrði í formi meðhöndlunar úrgangs. Eftirlitið hafi einnig haft ákveðið eftirlit með matarmarkaðinum. Eftir samskipti við MAST hafi eftirlitið svo bannað sölu á kjötinu og veitt áminningu og MAST síðan kært málið. Sagði framkvæmdastjórinn að það mætti segja að heilbrigðiseftirlitið hefði haft aðra sýn á málið en MAST.

Segir í dóminum að óumdeilt sé að aðstaðan að Birkihlíð, þar sem 10 lömbum var slátrað, var ekki löggilt sláturhús, en að gögn málsins bendi hins vegar til þess að þar hafi verið til staðar tímabundið leyfi til kjötvinnslu. Þá fellst dómurinn á að lögin taki aðeins til slátrunar gripa, en ekki sölu eða dreifingar og þar með er Sveinn sýknaður, þar sem aðkoma hans var aðeins talin hafa verið í formi sölu og dreifingar kjötsins. Er allur sakarkostnaður felldur á ríkið.

Eins og fyrr greinir var Sveinn forstjóri Matís, en honum var sagt upp störfum í desember árið 2018. Samkvæmt fundargerðum stjórnar, sem mbl.is fékk aðgang að árið 2019, mátt sjá að stjórnin var ekki einróma um uppsögnina og var ástæða uppsagnarinnar sögð trúnaðarbrestur, en deilt var um hvort Sveinn hefði upplýst stjórnina um heimaslátrunarverkefnið. Var bókun um umræðu um verkefnið meðal annars tekin úr fundargerð áður en þær voru samþykktar.

Eftir að MAST tilkynnti um kæruna til lögreglu komst hiti í málið innan stjórnar og fundaði stjórn svo utan hefðbundins fundarstaðar og fór yfir „þá stöðu sem upp er kom­in varðandi sam­skipti og traust milli stjórn­ar og for­stjóra.“ Tíu dögum síðar ákvað stjórnin á símafundi að ekki væri unað við óbreytt ástand og var lagt til að Sveinn myndi annað hvort hætta eða að freista þess að byggja upp traust á ný. Tveir stjórnarmenn vildu kjósa með seinni tillögunni, en fimm með þeirri fyrri. Var stjórn­ar­for­manni í ljósi niður­stöðunn­ar veitt heim­ild til að gera starfs­loka­samn­ing við Svein, en hann fékk uppsögnina í vinnuferð erlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert