Haturstákn ekki liðin innan lögreglunnar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkislögreglustjóri ætlar að ræða mál sem snúa að klæðnaði lögreglumanna og kynþáttafordómum á fundi lögregluráðs.

Þetta kemur fram í Twitter-færslu Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra.

Hún segir símenntun lögreglunnar hafa verið í skoðun og að úrbætur á því sviði snúi meðal annars að aukinni fræðslu um hatursorðræðu og samfélagslegum skilningi.  

„Ég held að við séum flest sammála um það að íslenskir lögreglumenn leggi sig almennt fram við að koma fram við fólk af vinsemd og virðingu. Lögreglan á að sýna fram á að hún starfi og þjóni öllum þeim sem hér búa og dvelja – og ég tel að hún geri það,“ skrifar Áslaug einnig.

„Það er alveg skýrt, haturstákn og sjónarmið verða ekki liðin innan lögreglunnar, ekki nú né framvegis. Ef við þurfum að auka menntun eða taka á því með einhverjum hætti sem yfirstjórn lögreglunnar telur rétt, þá gerum við það,“ bætir hún við.

Í gær var greint frá því að lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu hafi til skoðunar merki sem lög­regluþjónn við skyldu­störf bar á fatnaði sín­um.

Síðan um daginn sendi lögreglan frá sér yfirlýsingu þar sem kom fram að hún styðji ekki með neinum hætti hat­ursorðræðu eða merki sem ýti und­ir slíkt. Þar kom einnig fram að málið verði tilkynnt til eftirlitsnefndar um störf lögreglu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert