Pawel Bartozek, borgarfulltrúi Viðreisnar, skrifaði pistil á Facebook í kvöld þar sem hann vakti athygli á stormasamri umræðu sem skapast hafi í kjölfar fregna af barmmerkjum sem lögreglumenn hafa gengið með hér á landi.
„Hef enga trú á því að það gagnist mikið að afgreiða einhverja óbreytta lögreglumenn og konur sem "rasista". Lífið er ekki svona svarthvítt, flest fólk er innst inni gott, en gerir stundum mistök,“ skrifar Pawel.
Vekur hann athygli á því að ekki sé auðvelt að takast á við „skítastorma“ og síður en svo sé það auðvelt þegar um óbeytta borgara er að ræða, sem ekki hafa sama tengslanet eða reynslu af fjölmiðlum og opinberar persónur. Telur Pawel að eðlilegra hefði verið ef fagfólk myndi klára málið með stuttri og einlægri afsökubarbeiðni en síðan yrðu yfirmenn látnir svara um framhaldið.