Í stöðuuppfærslu á facebooksíðu Refugees in Iceland má finna alvarlegar ásakanir um vanrækslu og frelsissviptingu yfirvalda á umsækjendum um alþjóðlega vernd sem dvelja á Ásbrú. Útlendingastofnun vísar ásökunum á bug og telur misskilning mögulegan, umsækjendur séu frjálsir ferða sinna og fái mat í bökkum vegna tveggja metra reglunnar.
Í færslunni segir að réttindi umsækjenda um vernd hafi verið skert verulega. Þar er haldið fram að umsækjendum sé ekki heimilt að yfirgefa herbergi sín án andlitsgrímu en hver umsækjandi hafi einungis fengið eina einnota grímu á mann.
Þá er því haldið fram að sæki umsækjandi ekki matarbakka á tilteknum tíma sé þeim neitað um mat og að sykursjúkum manni hafi verið neitað um mat í þrjá daga.
Því er einnig haldið fram að umsækjendur hafi beðið um að fá að snúa aftur til Grikklands vegna ástandsins á Ásbrú.
Þegar þessi frétt er skrifuð hefur færslunni verið deilt rúmlega 200 sinnum og fjölmargir boðið fram aðstoð við matarinnkaup og að útvega grímur.
Í svari við fyrirspurn segir Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, að þurft hafi að grípa til hertra sóttvarnaráðstafana í kjölfar þess að tveggja metra reglan tók gildi á landinu öllu.
„Vegna aðbúnaðar í tveimur úrræðum stofnunarinnar á Ásbrú, þar sem ekki er hægt að framfylgja tveggja metra reglunni í sameiginlegum eldhúsum, var ákveðið að kaupa tímabundið matarbakka fyrir þá sem þar dvelja. Til sambærilegra ráðstafana var gripið á meðan tveggja metra reglan var í gildi í vor til að draga úr smithættu í úrræðunum,“ segir í svari frá Útlendingastofnun.
Þá eru ásakanir um að umsækjendum sé neitað um mat svarað:
„Íbúum úrræðanna á Ásbrú er ekki skylt að bera grímu í sameiginlegum rýmum en til þess hefur verið mælst að þeir beri grímu á meðan matarbökkum er úthlutað og þegar þeir umgangast aðra innan úrræðis án þess að geta viðhaft tveggja metra fjarlægð. Íbúarnir geta nálgast grímur hjá öryggisvörðum eða starfsmanni Útlendingastofnunar eftir þörfum og er þeim jafnframt séð fyrir handspritti og handsápu.
Engum er neitað um matarbakka, hvorki fyrir að bera ekki grímu við úthlutun né fyrir að sækja matinn eftir auglýstan tíma, og öllum er frjálst að fara út úr húsi að vild.“
Í samtali við mbl.is segir Þórhildur Hagalín að það þurfi tíma fyrir nýjar leiðbeiningar og nýjar reglur að ná fótfestu þegar um fjölbreyttan hóp fólks er að ræða.
Enn fremur segir í svari Útlendingastofnunar: „Þessar sóttvarnaráðstafanir mælast eðlilega misvel fyrir enda draga þær úr möguleikum umsækjenda til að stýra sínu daglega lífi eins og eðlilegast væri. Eins getur alltaf komið upp misskilningur milli manna, ekki síst í úrræðum þar sem margir dvelja. Stofnunin gerir sitt besta til að leiðrétta allan misskilning en þessar ráðstafanir eru nýtilkomnar. “
Færsluna sem um ræðir má lesa hér: