Komum alþjóðlegra ferðamanna á heimsvísu fækkaði um 70 prósent á fyrstu átta mánuðum ársins 2020 vegna kórónuveirufaraldursins. Alþjóðaferðamálastofnunin (WTO) greindi frá þessu í dag en stofnunin spáir því að ferðamannaiðnaðurinn á heimsvísu muni ekki ná að jafna sig fyrir árslok 2021.
Eins og Íslendingar urðu varir við eyðilagðist háannatímabil í ferðamannaiðnaðnum á norðurhveli jarðar þetta árið, hvað varðar alþjóðlega ferðamenn. Þeim fækkaði um 81% í júlí og 79% í ágúst.
Komur farþega til landa á heimsvísu voru 700 milljónum færri frá janúar til ágúst samanborið við sama tímabil ári áður. Tapið sem af því hlaust hleypur á 730 billjónum dala. Er um að ræða tap sem er meira en átta sinnum stærra en tapið sem varð í kjölfar efnahagshrunsins á fyrsta áratug þessarar aldar.
„Þessi ófyrirsjáanlegi samdráttur hefur dramatísk áhrif á efnahag þjóða sem og verulegar félagslegar afleiðingar. Hann setur milljónir í hættu á að missa lífsviðurværi sitt,“ sagði Zurab Poloikashvili, framkvæmdastjóri WTO, í yfirlýsingu.
Mestur varð samdrátturinn í Asíu en þar skall faraldurinn fyrst á. Komum ferðamanna til landsins fækkaði um 79% á fyrstu átta mánuðum ársins. 69% færri ferðamenn fóru til Afríku og Mið-Austurlanda, 68% færri til Evrópu og 65% færri til Ameríku.
WTO spáir því að komur alþjóðlegra ferðamanna muni á heimsvísu dragast saman um 70% á árinu 2020 í heild sinni. Ferðamannaiðnaðurinn mun, að mati stofnunarinnar, ekki jafna sig fyrir árslok 2021.