Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði í þætti Kastljóss í kvöld að honum þætti æskilegast að herða sóttvarnaaðgerðir strax fyrir helgi. Nú sé það fullreynt að herða ekki aðgerðir hratt í kjölfarið af stórum hópsmitum. 117 kórónuveirusmit eru nú rakin til hópsmitsins á Landakotsspítala.
„Lærdómurinn sem við getum dregið er að þegar svona hópsýkingar koma upp þá verðum við að þrengja að hart [...] Ég held að við hljótum að fara á sama stað og í vor að loka öllum verslunum nema matvöruverslunum, veitingahúsum og bönnum íþróttastarf innanhúss og utanhúss,“ sagði Kári.
Kári segir að ekki megi endilega tala um það sem mistök að hafa ekki hert meira að þegar hópsmit komu upp á skemmtistöðum í september. Hann segir þó að gerð hafi verið ákveðin tilraun með mildum aðgerðum, sem nú sýni sig að hafi ekki gengið upp.
„Við hefðum átt að bregðast mjög hart við þessum hópsmitum sem upp komu í september.“