Hofsjökull minnkar enn að flatarmáli og rúmmáli, enda þótt leysing á jöklinum á liðnu sumri hafi mælst heldur minni en oft áður.
Neðan við 1.000 m hæð á jöklinum bráðnuðu 1-2 m vetrarsnævar og víðast 3-4 m jökulíss til viðbótar en fyrningar söfnuðust víðast hvar ofan við 1.300 m hæð. Þar leysti því minna í sumar en á bættist veturinn 2019-2020. Þetta sýna mælingar jarðvísindafólks Veðurstofu Íslands sem fór á jökulinn í rannsóknarskyni nú í byrjun október.
Í Hofsjökulsferð nú voru Bergur Einarsson, Hrafnhildur Hannesdóttir og Þorsteinn Þorsteinsson sem komu að jöklinum úr norðri og óku upp úr Skagafirði. Farið var á vélsleðum milli mælipunkta á Hofsjökli, lesið af stikum og skrið jökulsins mælt með GPS-tæki. Nýr vetrarsnjór er fallinn um allan jökul, mest um 1,5 metrar á hábungunni í tæplega 1.800 m hæð.
Þorsteinn segir að yfirleitt sé gott samhengi milli sumarhita og jöklaleysingar og séu veðurgögn frá Hveravöllum gagnleg í þeim samanburði. Þar reyndist meðalhiti sumarsins, það er tímabilsins frá maí til september, 5,1 gráða sem er einni gráðu lægra en meðaltal sl. áratugar og 1,5 gráðum minna en meðaltalið 2001-2010 segir hann. „Með hitastig á Hveravöllum til hliðsjónar kom ekki á óvart að leysing á jöklinum nú í sumar mældist heldur í minna lagi en að jafnaði gerist,“ sagði Þorsteinn þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær.