Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar nú tvö tengd atvik sem upp komu á Keflavíkurflugvelli fyrir ári síðan, 28. október 2019.
Snemma morguns rann bandarísk sjúkraflugvél út af flugbrautarenda og inn á öryggissvæði utan flugbrautarinnar. Flugvélin stöðvaðist að lokum við enda öryggissvæðisins. Á meðan unnið var að því að fjarlægja flugvélina var flugbrautinni, 01/19, lokað og þar með öllum flugvellinum þar sem öðrum flugbrautum hafði ekki verið haldið opnum um nóttina. Var vélum því beint til Akureyrar.
Rannsókn þessa máls beinist að hálkuvörnum á Keflavíkurflugvelli, en í stöðuskýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að lokadrög skýrslunnar séu í umsögn. RÚV greinir fyrst frá.
Klukkan 06:04 þegar vellinum var lokað var flugvél Icelandair TF-ISF að nálgast Keflavíkurflugvöll á leið frá Seattle. Vélin fór því í svokallað biðflug nálægt Keflavíkurflugvelli. Sautján mínútum síðar lýsti flugstjóri vélarinnar yfir neyðarástandi og sagðist verða að lenda á lokuðu flugbrautinni, 01/19, vegna lágrar eldsneytisstöðu. Lenti vélin sex mínútum síðar án heimildar.
Í stöðuskýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að rannsókn þess máls beinist meðal annars að eldsneytismálum Icelandair, undirbúningu flugsins, veðri, þjónustustigi Keflavíkurflugvallar, hálkuvarna á Keflavíkurflugvelli, viðbragðsgetu við opnun varaflugvalla, viðbragðsgetu við hálkuvarnir varaflugvalla sem og kerfislegra misbresta