Þurfum að „reyna að afstýra stórkostlegum skaða“

„Landspítalinn er kominn að þolmörkum og hann þolir ekki annað …
„Landspítalinn er kominn að þolmörkum og hann þolir ekki annað áfall af völdum Covid eins og var í síðustu viku, hvað þá ef eitthvað annað alvarlegt gerist,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson.

Umsjónarlæknir Covid-19-göngudeildar Landspítala telur nauðsynlegt að gripið sé til hertra aðgerða vegna kórónuveirufaraldursins. Næstu tvær til þrjár vikur séu afar mikilvægar og Landspítali þoli ekki annað áfall af völdum Covid eins og kom upp í síðustu viku með hópsmiti á Landakoti. Hann hvetur fólk til samstöðu og segir að slíkt sé mikilvægara nú en í fyrstu bylgju faraldursins. 

Í þeirri bylgju náði göngudeildin mögulega að afstýra 70% innlagna Covid-19-sjúklinga á sjúkrahús og gengur jafnvel betur nú að afstýra slíkum innlögnum. Stöðugt álag er á göngudeildinni, aukinn þungi og staðan alvarlegri en deildin annar samt sem áður verkefnum sínum vel, að sögn Ragnars Freys Ingvarssonar, umsjónarlæknis deildarinnar.  

„Við höfum hringt í alla sjúklinga, innritað alla sjúklinga sem þess þurfa, útskrifað alla á réttum tíma, getað kallað alla þá inn í skoðun sem við teljum þurfa. Það er rosalega ánægjulegt þegar maður nær að anna verkefnum dagsins,“ segir Ragnar. 

Ánægjulegt þegar tekst að bægja fólki frá innlögn

Hvað áttu við með því að aukinn þungi sé á göngudeildinni? 

„Nú er að verða vika liðin síðan við bættist stór sjúklingahópur af fólki sem glímir við alvarlegan heilsubrest og er hrumt. Við merkjum það alveg að eftir því sem tíminn líður þá er hættan á því að þetta fólk veikist meira. Við finnum alveg fyrir því að sumt af þessu veika fólki hefur veikst aðeins meira en mér sýnist starfsfólkið á Landspítala og á göngudeildinni vera að ná að passa vel upp á það. Fyrir þá sjúklinga sem eru utan Landspítala höfum við nýtt göngudeildina til þess ná fólki í stöðugra ástand, jafnvel þeim sem seinna þurfa að leggjast inn. Stundum höfum við náð að bægja fólki frá innlögn. Það er ánægjulegt að það hafi tekist þótt atburðurinn í sjálfu sér sé mjög óheppilegur og leiðinlegur,“ segir Ragnar. 

Hann telur að göngudeildin virki mjög vel en starfsemi göngudeildarinnar er óbreytt þrátt fyrir mikið álag á spítalanum. Með því að hringja í þá sem eru í eftirliti deildarinnar heyra starfsmenn hvenær fólk er farið að veikjast og geta því gripið inn í fyrr en ella og þannig afstýrt innlögnum. 

Mynd frá Landakoti. Þar kom upp hópsmit í síðustu viku.
Mynd frá Landakoti. Þar kom upp hópsmit í síðustu viku. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Ná mögulega að hægja á sjúkdómnum

Ragnar segir að minna sé um það nú en áður að fólk sé óvænt lagt inn á spítala, göngudeildin sé venjulega með fólk í svo góðu eftirliti að hún geti sagt til um það hvenær fólk þurfi á innlögn að halda. 

„Flestir hafa verið í eftirliti hjá okkur í einhvern tíma. Við köllum þá inn í nokkra daga þegar þetta gengur ekki lengur heima. Þess vegna held ég að það séu færri sjúklingar á gjörgæslu eins og sakir standa. Við erum að mögulega að ná að hægja á sjúkdóminum, á fyrri stigum hans en ekki síðari,“ segir Ragnar. 

En hvernig er hægt að bremsa veikindin af? 

„Við höfum tvö veirulyf, favipiravir og remdesevír. Þegar þú ert orðinn alvarlega veikur notum við líka mjög öfluga sterameðferð. Svo erum við frekar framsækin að meðhöndla alla undirliggjandi sjúkdóma á sama tíma, allar fylgisýkingar. Við reynum að huga að þínu undirliggjandi ástandi, stuðla að vökvainntöku, næringarinntöku, að meðhöndla einkenni, verki, ógleði, vanlíðan svo sjúkdómsferillinn verði sem bærilegastur. Síðast en ekki síst þá held ég að það að finna fyrir stuðningi þegar maður er veikur og hræddur skipti mestu máli, að þú vitir að þú getir alltaf fengið hjálp þegar þú þarft hana. Það held ég að dragi úr þessari hræðslu sem fylgir og er eitur í þessum sjúkdómi.“ 

„Við þurfum að sigla öllu þessu gamla hruma fólki í …
„Við þurfum að sigla öllu þessu gamla hruma fólki í gegnum þetta öldurót og af öllum mætti reyna að afstýra stórkostlegum skaða, “ segir Ragnar. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Landspítali þoli ekki annað áfall

Sóttvarnalæknir hyggst senda til heilbrigðisráðherra í dag minnisblað þar sem hann setur fram tillögur um hertar aðgerðir vegna faraldursins.

Spurður hvort hann telji að grípa þurfi til hertra aðgerða í samfélaginu til þess að koma í veg fyrir frekara álag á spítalann segist Ragnar telja að slíkt sé nauðsynlegt þótt það sé leiðinlegt. 

„Landspítalinn er kominn að þolmörkum og hann þolir ekki annað áfall af völdum Covid eins og var í síðustu viku, hvað þá ef eitthvað annað alvarlegt gerist. Það þarf að skrúfa niður í hraða samfélagsins til þess að minnka líkurnar á því að fólk smitist, fái hjartaáföll, detti niður björg og allt þetta, það sem við vinnum daglega við að sinna.“

Ragnar telur að næstu tvær til þrjár vikur séu hvað mikilvægastar. 

„Við þurfum að sigla öllu þessu gamla hruma fólki í gegnum þetta öldurót og af öllum mætti reyna að afstýra stórkostlegum skaða. Ef það tekst þá held ég að við séum komin í miklu lygnara ástand. Það ríður á því nú að við stöndum öll saman eins og í fyrstu bylgjunni. Það er jafnvel enn þá mikilvægara en áður vegna þess að spítalinn er nú við þolmörk og fólk verður að reyna að skilja það. Við á sjúkrahúsinu getum ekki gert þetta ein, við verðum að gera þetta öll saman, öll sem eitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert