Hópsmit frá veisluhöldum og íþróttaviðburðum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sóttvarnalæknir segir algjörlega nauðsynlegt að gripið sé til aðgerða vegna útbreidds samfélagssmits kórónuveirunnar, sérstaklega í ljósi þess að ástandið á Landspítala sé erfitt. Hópsmit hafa greinst að undanförnu í kringum viðburði þar sem fólk hefur komið saman. 

75 greindust smitaðir af kórónuveirunni í gær en 60 þeirra voru í sóttkví. Spurður um mat á tölum gærdagsins segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir: 

„Þetta er bara svona upp og niður. Sérstaklega ef við horfum á þessar tölur um fólk sem er ekki í sóttkví sem mælikvarða á samfélagssmitin þá er það bara svona á svipuðu róli, kúrfan er heldur á uppleið ef eitthvað er, ef litið er til síðustu daga. Maður hefði viljað sjá þetta einhvern veginn öðruvísi. Við erum bara að fá svona hópsýkingar hér og þar, fyrir norðan, út frá þessum Landakotssmitum og svo framvegis. Þetta er mjög óviss staða eins og þetta er núna.“

Þórólfur segir að hópsmit sem greinst hafi undanfarna daga tengist því að fólk hafi safnast saman. Engar fleiri stórar hópsýkingar hafi þó komið í ljós en þær sem áður hafa verið til umfjöllunar. 

„Þetta eru hópsmit í kringum veisluhöld, þar sem fólk er að koma saman, á íþróttaviðburðum, í skólum og svo framvegis,“ segir Þórólfur.

Vonar það besta en býr sig undir það versta

Mun fleiri smit greindust í gær en daginn þar á undan og eru sveiflur í tölum síðustu 10 daga augljósar. Þórólfur segir að það segi ekkert sérstakt um þróun faraldursins. 

„Það voru til dæmis mörg sýni tekin fyrir norðan í fyrradag og var ekki hægt að keyra fyrr en í gær svo þetta er orðið svona svolítið sveiflukennt,“ segir Þórólfur. 

Ríkisstjórnin hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 13:00 í dag. Þangað mætir þríeykið einnig, þau Þórólfur, Alma Möller landlæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. Þar stendur til að kynna reglu­gerð rík­is­stjórn­ar­inn­ar um frek­ari sótt­varnaaðgerðir vegna Covid-19-far­ald­urs­ins. Þórólfur vill ekkert gefa uppi um það hvaða aðgerðir hann hafi lagt til. 

Þú telur væntanlega nauðsynlegt að gripið sé til hertra aðgerða? 

„Ég held að það sé algjörlega nauðsynlegt að gera eitthvað því það gæti allt í einu gerst að við fengjum mikla, stóra hópsýkingu og ég veit að ástandið á Landspítalanum er til dæmis mjög erfitt út af öðrum sjúklingum líka,“ segir Þórólfur. 

Spurður hvort Íslendingar megi eiga von á því að eiga rólega helgi vegna hertra aðgerða segist Þórólfur ekki geta sagt til um það. 

„Maður hefur stundum vonað að helgin eða dagarnir verði rólegir en síðan verða þeir allt öðruvísi þannig að maður verður bara að búa sig undir það versta og vona hið besta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert