Kári telur tímabært að Alþingi ræði sóttvarnareglur

Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, kveðst sammála Sigríði Andersen í þeim …
Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, kveðst sammála Sigríði Andersen í þeim efnum að tímabært sé að sóttvarnareglur verði teknar til umfjöllunar á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, kveðst sammála Sigríði Andersen, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, í þeim efnum að tímabært sé að Alþingi hefji að skoða heimildir til sóttvarnaaðgerða, þar sem slíkt væri í samræmi við hlutverk handhafa löggjafarvaldsins. 

Kom þetta fram í hlaðvarpi Viljans, þar sem Björn Ingi Hrafnsson ritstjóri miðilsins, tók Kára og Sigríði tali á fjarfundi og ræddu þau þrjú um viðbrögð við heimsfaraldrinum.  

„Ég hallast að því að við séum komin yfir það tímabil sem hægt er að játa einhverskonar neyðarástandsráðstöfunum. Ég tel að þingið þurfi aðeins að ræða þetta frekar,“ sagði Sigríður og hafði áður velt því upp að spurning sé hvenær löggjafinn þurfi að taka ábyrgð á sóttvarnaaðgerðum.

Þegar Kári tók til máls kvaðst hann sammála öllu sem Sigríður hafði sagt á fjarfundinum: „Ég er sammála hverju einasta orði sem þú hefur sagt. Ég held að það sé kominn tími til þess að Alþingi fari að skoða þetta mál [...],“ sagði Kári. 

Sigríður Andersen hefur velt fram gagnrýnum spurningum varðandi takmarkanir yfirvalda …
Sigríður Andersen hefur velt fram gagnrýnum spurningum varðandi takmarkanir yfirvalda í ljósi faraldursins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gagnrýndi „göt“ í reglugerðinni

Sigríður gagnrýndi takmarkanir stjórnvalda á skólastarfi, í ljósi þess að fá smit greindust meðal barna og unglinga. Í því samhengi sagði Kári:

„Að vísu ber þess að geta þegar maður veltir því fyrir sér hvenær þessu bráðaástandi er lokið, þá getur þetta ástand komið í sveiflum og ef við næðum því ástandi sem var í maímánuði og fram í júní, erum við komið á svæði þar sem við erum sammála um að bráðaástandinu sé lokið,“ sagði hann. 

„Þessi þriðja bylgja sem skollið hefur á okkur er verri en sú fyrsta og þessi gerð sem er í samfélaginu núna virðist smita svolítið meira en þær gerðir sem voru í vor,“ bætti hann við. Um helmingur skólabarna smitist, sem er vissulega minna hlutfall en hjá fullorðnum en það breyti því ekki að börn geti smitað frá sér.

Kom einnig fram í máli hans að hann teldi skynsamlegra ef gripið hefði verið til hertari aðgerða og gagnrýndi „göt“ í reglugerðinni sem tilkomin væru vegna opnunar veitingahúsa og tregðu til þess að hólfa skólana. Þó þyrfti að huga að heildarmyndinni þegar ákvarðanir væru teknar.

Aðhlynningu smitaðra þurfi að færa á aðra stofnun en LSH

„Við verðum að horfa til heilbrigðiskerfisins almennt og meira að segja er þetta komið á það stig að mér fyndist mikilvægt að fara að velta því fyrir sér að taka þennan faraldur út fyrir sviga. Það er að segja, að flytja aðhlynningu þeirra sem eru sýktir af þessari veiru inn á aðra stofnun en Landspítalann, því það er ekki hægt að búa við það lengi að fólk komist ekki í valkvæðar aðgerðir eins og hjartaaðgerðir, liðsskiptaaðgerðir, og svo framvegis,“ sagði Kári. 

Þátturinn í heild:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert