„Það hlaut að koma að þessu“

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Eggert

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir að þakklæti og stolt séu honum efst í huga í kjölfar ákvörðunar sinnar um að hætta þátttöku í stjórnmálum. Steingrímur hefur setið á Alþingi óslitið í hátt í 38 ár, lengst af sem formaður Vinstri grænna.

„Það hlaut að koma að þessu einhvern tímann,“ segir Steingrímur í samtali við mbl.is

„Ég geri þetta núna vegna þess að ég tel þetta vera heppilegan tíma fyrir mig og fyrir Vinstri græn. Nú gefst vonandi tími sem þarf til þess að undirbúa þær breytingar sem verða mögulega á starfi flokksins.“

Hættir áður en aðrir vilja losna við hann

Steingrímur segir að með þessu rætist gamall draumur um að hætta sjálfur en ekki vegna þess að aðrir vilji ólmir losna við hann.

„Ég vona bara að svo sé, ég hef alltaf viljað gera þetta svona í stað þess að fara vegna þess að aðrir vilji mig burt.“

Hann segist ekki sjá eftir neinu á sínum ferli, þvert á móti sé hann stoltur af þeim árangri sem Vinstri græn hafa náð. Þá segist hann vera þakklátur fyrir allan þann stuðning sem hann hefur fundið á ferli sínum.

„Það sem stendur helst uppúr er líklega það traust sem mér hefur verið sýnt í gegnum minn starfsferil. Ég hef leitt lista á Alþingi ellefu sinnum og er búinn að taka þátt í kosningum síðan 1979. Við höfum með Vinstri grænum svo náð þeim árangri einu sinni að vera fylgismesti flokkurinn í Norðausturkjördæmi, því náðum við næstum aftur núna seinast. Þannig að það traust sem mér hefur verið sýnt í gegnum tíðina er það sem er mér efst í huga á þessum degi.“

„Svo er ég gríðarlega stoltur af þeim árangri sem hlotist hefur af stofnun Vinstri grænna. Upphafsmenn þessa flokks dreymdi auðvitað um að skapa vettvang fyrir vinstrimenn, umhverfissinna og femínista og ég tel að það hafi tekist einkar vel. Við breyttum stjórnmálunum á vinstri vængnum til frambúðar og af því er ég afskaplega stoltur.“

Heldur áfram en verður ekki fyrir

Spurður að því hvað taki nú við eftir 38 ára þingsetu segir Steingrímur að það liggi algjörlega fyrir.

„Það bíður nú næstum heilt ár eftir forseta Alþingis. Eitthvað legg ég svo kannski flokknum lið í komandi kosningum, en eins og ég sagði við mitt fólk í dag í Norðausturkjördæmi að þegar ég hætti, þá hætti ég. Það eru margir sem segjast ætla að hætta í stjórnmálum en tekst það kannski ekki alveg. Sumir hafa klikkað á þessu og þvælast sífellt fyrir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka