„Þetta er einfaldlega sprunginn spítali“

Theodór segir að álagið sé mikið á gjörgæsludeild Landspítalans. Bæði …
Theodór segir að álagið sé mikið á gjörgæsludeild Landspítalans. Bæði vegna Covid-sjúklinga og annarra hefðbundinna tilfella. Ljósmynd Landspítalinn/ÞÞ

Þrátt fyrir mikið álag á gjörgæsludeildum Landspítala segir Theodór Skúli Sigurðsson læknir að andinn meðal starfsfólks sé góður. Eftir að gjörgæslurýmum var fjölgað í upphafi þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins er róðurinn léttari, en sú búbót hefði mátt koma fyrr.

Landspítalinn hefur verið fullnýttur í mörg ár og því ekki ráðrúm til að takast á við faraldur á borð við þann sem nú ríður yfir. Hann vonast til þess að gjörgæslurýmin verði áfram eins mörg og þau eru núna og hefur þau skilaboð til almennings að „hlýða Víði.“

„Sprunginn spítali“

„Þetta er einfaldlega sprunginn spítali,“ sagði Theodór í samtali við mbl.is. „Þetta er spítali sem var með 100% nýtingu og ef stoðirnar voru tæpar þá, þá hriktir svo sannarlega í þeim núna.“

Blaðamaður hringdi í Theodór upp úr hádegi í dag og var hann að fara á vakt á gjörgæsludeild Landspítalans á Hringbraut klukkan fimm síðdegis. Nú eru fjórir alls á gjörgæslu vegna Covid-19 en þrátt fyrir að samfélagið sé allt í hægagangi, segir Theodór að þónokkuð margir sjúklingar komi á gjörgæslu vegna annarra orsaka en kórónuveirunnar. Hann segir að meginþunginn á gjörgæslunni núna sé ekki vegna Covid-sjúklinga, það sé þó tilfallandi og í raun engum að kenna.

„Nei, þetta er ekkert vegna þess endilega að fólk er ekki að fara eftir reglum. Ég held miklu frekar að þetta sé bara tilfallandi. Kannski einhverjar sjúkdómagreiningar sem hafa safnast upp síðan í vor í fyrstu bylgju og séu að koma inn núna, án þess að fullyrða neitt um það sérstaklega.“

Hjálpar að hafa bætt við rýmum

Í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins voru færri gjörgæslurými í boði en eru núna: sjö á Hringbraut en sex á Borgarspítala í Fossvogi. Úr þessu hefur verið bætt og nú eru átta gjörgæslurými á hvorum spítalanum fyrir sig. Hann segir það líklega hafa þurft að vera þannig jafnvel áður en faraldurinn skall á.

Gjörgæslurýmum hafi núna í nokkur ár ekki verið fjölgað í takt við fólksfjölgun Íslendinga eða fjölgun ferðamanna hér á landi. Hann heldur og vonar að rýmin verði áfram svona mörg eftir að faraldurinn hefur gengið yfir.

„Að manna þessar vaktir er allt annað núna, úr því að rýmum var fjölgað,“ segir Theodór. „Núna er mönnunin bara fín, þó svo að við séum að missa marga í sóttkví og einangrun. Við hefðum líklega þurft að hafa þennan fjölda gjörgæslurýma meira að segja áður en faraldurinn skall á.“

„Við erum með þrjár deildir sem eru undirlagðar undir Covid-sjúklinga og á hverri deild starfa alltaf tveir sérfræðingar hverju sinni, einn sem sér um Covid-sjúklinga og hinn sér um skurðstofur.“

Theodór Skúli á vaktinni.
Theodór Skúli á vaktinni. Ljósmynd/Facebook

Vita við hverju á að búast þegar smit eru mörg

Theodór segir mikilvægt að heildarsmitum hvern dag verði fækkað, þannig fækki um leið innlögnum og álagið á heilbrigðiskerfið minnkar. Hann segir að í hvert sinn sem fréttir berist af háum smittölum viti hann og félagar hans á gjörgæslunni hvað sé í vændum.

„Það er nú bara þannig að þegar svona toppar koma, þá veit maður bara hvað gerist. Vanalega eru sjúklingar á fá alvarlegri einkenni svona 7 til 10 dögum eftir að þeir veikjast, þannig að þegar það koma fréttir af kannski 80 til 90 smitum einhvern daginn þá vitum við að eftir 7 til 10 daga að þá munu sjúklingar leggjast inn, og hugsanlega á gjörgæslu.“

Gott skipulagt og öflugt starfsfólk

Hann segir að kerfið á Landspítalanum sé gott, starfsmenn séu vel þjálfaðir og utanumhaldið skipulegt. Vel er fylgst með því í gegnum litakóðunarkerfi.

„Það sem er svo gott er að Covid-göngudeildin fylgist með öllum sjúklingunum, þannig að við höfum yfirsýn yfir alla sjúklingana. Þannig að ef einn leggst inn þá erum við með yfirsýn yfir stöðu hans frá upphafi. Fyrst er hann merktur grænn með kannski alvarleg en ekki lífshættuleg einkenni en svo ef hann verður merktur gulur, þá förum við á gjörgæslunni kannski að undirbúa komu hans þangað.

Svo ef fólk er rauðmerkt þá er staðan orðin svolítið alvarleg og þá erum við búin að kippa þeim út og inn á gjörgæslu.“

Ákall gjörgæslulæknis til Íslendinga! Í nótt voru báđar gjörgæsludeildir Landspítalans yfirfullar... Lífsbjargandi...

Posted by Theódór Skúli Sigurðsson on Föstudagur, 30. október 2020

„Hlýða Víði“

Theodór segir ekki fara á milli mála hvað gera þurfi til þess að bæta ástandið á spítalanum. Þrátt fyrir öflugt og þrautseigt starfsfólk verði álaginu að linna. Hann segist taka undir með þeim sem mála upp dökka mynd á spítalanum og segir útlitið ekki bjart.

„Já, ég tek algjörlega undir slíkar staðhæfingar. Það sem þarf í rauninni að gera er bara að „hlýða Víði.“ Það eru allir í sömu stöðu og það eru allir að berjast við þetta saman.

Þetta snýst um að vernda spítalann svo að við lendum ekki í því sem kollegar mínir á Spáni og Ítalíu, og að einhverju leyti Svíþjóð líka, þegar þeir þurftu að velja og hafna hverjir fengju inni á gjörgæslu og hverjir ekki. Sem betur fer höfum við ekki lent í þessu og við höfum getað sinnt öllum þeim sem koma á gjörgæslu eins vel og við getum. Þannig viljum við að það sé áfram.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert