Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur borist ellefu tilkynningar það sem af er degi vegna mögulegra brota á sóttvarnalögum. Nýjar samkomutakmarkanir tóku gildi á miðnætti.
Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir að fólk ætti frekar að reyna að átta sig á skilaboðunum sem samkomutakmarkanir senda út í samfélagið, í stað þess að reyna að finna leiðir til þess að komast hjá þeim.
Þessar tilkynningar, snúa þær aðallega að brotum á fjöldatakmörkunum?
„Þetta eru margvíslegar tilkynningar.“
„Sumar þeirra snúa að golfvöllunum. Golfsambandið ætlaði held ég að loka golfvöllunum þannig það leysist af sjálfu sér. Sumir kylfingar virtust halda að ef þeir væru einir á ferð að þá gætu þeir farið í golf.“
Í nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra eru allar íþróttir, innan- sem utandyra, með öllu óheimilar. Ásgeir segist þó skilja hvað býr að baki túlkun sumra kylfinga. „Maður skilur auðvitað þegar fólk spyr hver munurinn sé á því að ýta á undan sér barnavagni eða golfsetti.“
Þá segir Ásgeir einnig að tilkynning hefði borist um að of margir hefðu verið í barnaafmæli.
Ásgeir segir að einhverjar tilkynningarnar snúi að stærri verslunum. Annars vegar þar sem verslanirnar sjálfar séu mögulega brotlegar en hins vegar þar sem viðskiptavinir liggja undir grun.
„Það hefur borið á því að í verslunum sem eru alveg með sitt á hreinu og fara í einu og öllu eftir reglunum þá hafa einstaka viðskiptavinir verið með einhvern skæting. Svo að sama skapi hafa sumar verslanir ekki verið að passa sig nógu vel; hleypt fólki inn án þess að það sé með grímu og annað.“
Um umdeild fagnaðarlæti nýkrýndra Íslandsmeistara karla í knattspyrnu, Valsmanna, segir Ásgeir að það mál sé til skoðunar. Honum þykir leiðinlegt að sjá óábyrga hegðun þeirra sem eiga að vera fyrirmyndir ungra og upprennandi knattspyrnumanna. Blikakonur, sem fögnuðu saman gegnum fjarfundarbúnað, hafi þó staðið sig vel. „Ungu stelpurnar okkar eiga góða fyrirmynd í þeim.“
Hann segir að lögreglan sé með öll gögn í málinu og að framhald þess skýrist bráðlega. „Menn verða kallaðir fyrir og þá væntanlega sektaðir ef niðurstaðan verður sú.“
Ásgeir segir að fólk verði að reyna að skilja að núna sé ákallið frá stjórnvöldum að fólk haldi sig svolítið til hlés. Ef vel gengur núna að fara eftir tilmælum og reglum sóttvarnayfirvalda þá munu næstu vikur mögulega verða betri og ánægjulegri. „Ef við pössum okkur vel núna, í tvær eða þrjár vikur, og gerum þetta almennilega, þá getum við átt inni betri vikur í framhaldinu af því.“
„Fólk verður að skilja hvaða skilaboð og boðskapur það er sem núna er verið að senda út. Við verðum að standa saman í því að virða þessi tilmæli og þessar reglur, en ekki að reyna að finna leiðir til þess að komast hjá þeim. Það lengir bara í takmörkunum frekar en hitt.“