Auðveld ákvörðun að banna rjúpnaveiðar

Á rjúpnaveiði.
Á rjúpnaveiði. mbl.is/Golli

Guðrún María Valgeirsdóttir, einn af landeigendum Reykjahlíðar í Mývatnssveit, segir það ekki hafa verið erfiða ákvörðun að banna rjúpnaveiðar á jörðinni næstu tvær vikurnar vegna kórónuveirunnar.

„Það er svolítið síðan gefin voru út tilmæli um að menn væru ekki að fara á milli landshluta að óþörfu. Þegar þessi tilmæli komu á fimmtudag frá almannavörnum og þeim beint sérstaklega til rjúpnaveiðimanna, ákváðum við að taka af skarið þannig að það þyrfti ekkert að fara á milli mála,“ greinir Guðrún María frá.

Landeigendur eru átján talsins, að hennar sögn, og einhvern tíma tók að hóa þeim saman til að ræða málin. Ákveðið var að banna alla veiði frá 1. til 15. nóvember, líka á meðal landeigendanna sjálfra. „Það var einfaldast að það sætu allir við sama borð og að það yrði engin veiði næstu vikurnar,“ segir hún. „Við þurfum öll að leggja okkar af mörkum og við þurfum öll að sæta skerðingum.“

Á rjúpnaveiðum.
Á rjúpnaveiðum. mbl.is/Golli

Tugir veiðimanna um hverja helgi

Venjulega koma tugir rjúpnaveiðimanna í Reykjahlíð um hverja helgi á meðan rjúpnaveiðitímabilið stendur yfir en það átti að hefjast í dag og ljúka 30. nóvember. Guðrún María segir mögulegt að seinni tvær vikurnar í mánuðinum nýtist til rjúpnaveiða en það eigi eftir að koma í ljós. Núna sé fyrst og fremst horft á næstu tvær vikur og staðan svo tekin að því loknu.

Aðspurð hvort landeigendurnir verði ekki af einhverjum tekjum segir hún að undanfarin ár hafi þeir ekki verið að selja leyfin. Engu að síður þurfa menn leyfi til að veiða á jörðinni, enda um einkajörð að ræða. „Það getur orðið breyting á því þó að það verði ekki þetta árið,“ segir hún um sölu leyfanna.

Rjúpan njóti góðs af banninu

Fregnir hafa borist af hnignun í rjúpnastofninum og segist Guðrún María vona að rjúpan njóti góðs af banninu sem núna hefur verið sett á. „En aðallega þurfum við öll að hjálpast að við að hefta útbreiðslu veirunnar,“ segir hún og nefnir að með minni umferð á milli landshluta verði minni hætta á slysum. Einnig þurfi síður að kalla á björgunarsveitir eftir aðstoð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert