Seinni bylgjan verri en mótefnið dofnar ekki hratt

„Þessi þriðja bylgja sem hefur skollið á okkur er verri …
„Þessi þriðja bylgja sem hefur skollið á okkur er verri en sú fyrsta. Það hafa fleiri smitast og veiran virðist eins og stendur, þessi gerð sem er í samfélaginu núna, virðist smita meira en þær gerðir sem voru hér í vor,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að töluvert af þeirri upplýsingaóreiðu sem er til staðar í samfélaginu vegna Covid-19 byrji í vísindaheiminum. Það sé vegna þess að vísindagreinar séu nú birtar óritrýndar svo mögulegt sé að koma upplýsingum um faraldurinn áleiðis eins hratt og hægt er. Kári telur að bylgjan sem nú gangi yfir landið sé verri en sú fyrsta. 

Kári segir að grein sem birtist í Bretlandi í vikunni og íslenskir miðlar fjölluðu um hefði verið unnin á klaufalegan hátt og að niðurstöður hennar væru ekki réttar. Í greininni var fjallað um rannsókn sem leiddi í ljós að mótefni við Covid-19 lækkaði mjög hratt í blóði eftir sýkingu. Það segir Kári ekki rétt.

Þetta kom fram í hlaðvarpi Viljans sem birtist í gær en þar ræddi Björn Ingi Hrafnsson ritstjóri Viljans við Kára og Sigríði Á. Andersen, þingmann Sjálfstæðisflokksins sem hefur talað fyrir því að Alþingi fái að koma að ákvarðanatöku um aðgerðir í faraldrinum. 

Mikið magn mótefna í blóði í a.m.k. 6-7 mánuði

Kári sagði vísindamenn nú stundum að flýta sér að ná í nýja þekkingu „og hafa kannski ekki alveg haldið sig við þann standard sem eðlilegt er. Til dæmis birtist grein frá Bretlandi um að mótefni í blóði lækkaði mjög hratt eftir sýkingu. Það er bara alls ekki rétt. Sú rannsókn var gerð á mjög klaufalegan máta. Bæði rannsókn hjá okkur og stór rannsókn sem birtist í Bandaríkjunum sýna fram á, svo ekki verður um villst, að mótefnin haldast í blóði, mikið magn af mótefnum helst að minnsta kosti uppi í 6-7 mánuði,“ sagði Kári. 

„Það er kominn upp sá siður núna að um leið og þú sendir vísindagrein til birtingar til tímarits sem ritrýnir greinar þínar þá birtast þær í tímariti sem birtir þær órýndar sama dag. Það er ekki vegna þess að menn séu að reyna að koma þessu í birtingu án þess að greinar séu ritrýndar heldur í þessu tilfelli vilja þeir að heimurinn viti eins hratt og hægt er ef eitthvað nýtt kemur út. Vandinn við það er skilgreiningin á því hvað það er að uppgötva eitthvað. 

„Veiran er að breiðast út hraðar

Í máli Kára kom einnig fram að bylgjan sem nú gengi yfir landið væri verri en sú fyrsta.

„Það hafa fleiri smitast og veiran virðist eins og stendur, þessi gerð sem er í samfélaginu núna, virðist smita meira en þær gerðir sem voru hér í vor,“ sagði Kári. 

Sigríður spurði þá hvort það væri sanngjarnt að segja að nú sé um að ræða miklu verri bylgju. Nú virðist ekki vera jafn hátt hlutfall innlagna á spítala né jafn há dánartíðni og var í fyrstu bylgju. Við því sagði Kári:

„Veiran er að breiðast út hraðar. Hún virðist hafa komið sér fyrir úti um allt í samfélaginu, miklu víðar en í vor. Þetta er sama veiran að mestu leyti en við erum búin að læra svolítið.“

3.000 smit hafa bæst við síðan í vor

Með þessu svolitla átti Kári við að við vitum nú hvaða lyf við eigum að gefa sjúklingum til þess að hemja sjúkdóminn. „Þar af leiðandi farnast sjúklingunum miklu betur,“ sagði Kári og bætti við:

„Þetta er ansi stór hópur sem lendir inni á sjúkrahúsi og fólk verður alveg feikilega lasið. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að gera okkur grein fyrir því að alveg frá byrjun hefur veiran farið misjöfnum höndum um fólk. Þeir sem lenda í því að verða lasnir verða mjög illa lasnir og þeir sitja uppi með alls konar langtímaafleiðingar af þessu. Mælikvarðinn sem ég er að nota í þessu er fjöldi tilfella, hversu víða veiran hefur dreift sér, og hún hefur dreift sér víðar núna heldur en í vor.“

Þá benti Kári á að um 3.000 smit hefðu bæst við hérlendis síðan í vor. Í byrjun maí hafi smitin verið um 1.800. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert