Stjórn Félags grunnskólakennara fer fram á að menntamálaráðherra og heilbrigðisráðherra endurskoði undanþágur frá sóttvarnareglum í grunnskólum þannig að sóttvarnareglur þar verði byggðar á sömu forsendum og annars staðar í þjóðfélaginu.
Þetta kemur fram í ályktun stjórnarinnar en stutt er síðan stjórnvöld birtu nýja reglugerð um takmörkun á skólastarfi.
„Stjórn Félags grunnskólakennara tekur undir með menntamálaráðherra að „stærsta samfélagsverkefnið“ í faraldrinum sem nú gengur yfir sé að „tryggja menntun“ barna,“ segir í ályktuninni.
Þar kemur fram að liður í markmiðinu hafi verið að innleiða almennar sóttvarnareglur í grunnskólanum. Þannig átti með samstilltu átaki í stuttan tíma að ná samfélagssmiti niður sem hefur sett þúsundir í sóttkví í grunnskólanum.
„Sú vinna sem nú er verið að kynna í formi reglugerðar grefur alvarlega undan þessu markmiði. Þar má nefna að fjórir árgangar grunnskólans eru teknir undan sóttvarnareglum um tveggja metra fjarlægðarbil og leyfi gefið fyrir allt að fimmtíu í hóp. Það getur aldrei verið réttlætanlegt að gera minni kröfur til sóttvarna barna en annarra þjóðfélagsþegna, þvert á móti ber okkur að verja þau framar öllum öðrum,“ segir í ályktuninni.