Kennarar óttast um heilsu barna

„Við lítum svo á að reglugerðin, sem unnin var af …
„Við lítum svo á að reglugerðin, sem unnin var af menntamálaráðherra og samþykkt af heilbrigðisráðherra um helgina, taki raunverulega ekki utan um þau skilyrði sem sóttvarnalæknir setti fram á föstudaginn um að það yrði horft á grunnskólann sem eina heild,“ segir Þorgerður. mbl.is/Hari

Innan reglugerðar um skólastarf sem tekur gildi á morgun er að finna „svolítinn útúrsnúning á sóttvarnareglum og tilmælum sóttvarnalæknis,“ að mati formanns Félags grunnskólakennara. Stjórn félagsins telur að eðlilegra hefði verið að „stíga skrefið til fulls“ innan skólanna næstu tvær vikur og vernda þannig nemendur. Kennarar óttast um líkamlega og andlega heilsu barna í faraldrinum.

Reglugerðin kveður m.a. á um að fleirum sé leyft að koma saman í grunnskólum en annars staðar í samfélaginu þar sem 10 manna samkomutakmörk eru viðhöfð. Þannig mega 25 koma saman í fimmta til tíunda bekk og 50 í fyrsta til fjórða bekk.

„Við lítum svo á að reglugerðin, sem unnin var af menntamálaráðherra og samþykkt af heilbrigðisráðherra um helgina, taki raunverulega ekki utan um þau skilyrði sem sóttvarnalæknir setti fram á föstudaginn um að það yrði horft á grunnskólann sem eina heild heldur var 1. – 4. bekkur tekinn þarna út og settur undir skilyrði um 50 barna hólf,“ segir Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara.

„Við lítum bara svo á að það væri ekki raunhæft að miða við þetta núna þegar við værum í hörðustu aðgerðum sóttvarna í Íslandssögunni. Við töldum að þarna hefði verið eðlilegra að ganga skrefið til fulls núna í tvær vikur og fara svo hugsanlega í þessar aðgerðir í framhaldinu, en það var ekki niðurstaðan þannig að við getum ekkert annað en unnið samkvæmt þeirri reglugerð sem var samþykkt.“

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara.
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara.

Væri eðlilegra að fara í meira fjarnám

Grímuskylda er í fimmta til tíunda bekk í þeim tilvikum sem börn geta ekki viðhaft tveggja metra reglu.

„Það gefur auga leið að það eru fjölmargir staðir innan skóla þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra reglu milli einstaklinga. Hins vegar hefur það verið sveigt í þá átt að 25 nemendur í hóp í fimmta til tíunda bekk þurfi jafnvel að vera með grímur allan daginn þar sem ekki er hægt að tryggja fjarlægð á milli þeirra í því rými sem þeim er ætlað að vera í alla jafna, heilu og hálfu dagana. Þar erum við aftur komin með, að mínu viti, svolítinn útúrsnúning á sóttvarnareglum og tilmælum sóttvarnalæknis,“ segir Þorgerður.

Henni þykir skjóta skökku við að nemendur í fimmta til tíunda bekk þurfi nú margir að vera með grímur frá klukkan átta að morgni og til klukkan þrjú síðdegis, en eins og oft hefur komið fram endist hver gríma ekki í nema fjórar klukkustundir að jafnaði.

Hefðuð þið þá frekar viljað sjá 10 manna samkomutakmörk innan skólanna eða jafnvel að þeim yrði lokað alveg í tvær vikur?

„Nei, alls ekki. Við tökum einmitt undir það hversu mikilvægt það er að halda úti eins miklu skólastarfi og mögulegt er, ekki síst á þessum tímum. Við vorum og erum hins vegar þeirrar skoðunar að í þessar tvær vikur þar sem farið er í þessar sérstöku sóttvarnaaðgerðir væri eðlilegra  að keyra skólakerfið niður og jafnvel að fara í meira fjarnám, til dæmis frá fimmta og upp í tíunda bekk. Það yrði skoðað með hvaða hætti við gætum náð utan um nemendur, jafnvel að skóladeginum yrði tvískipt og ýmislegt annað.“

Þorgerður segir markmið kennara og skólastjórnenda tvíþætt. Að nemendur missi …
Þorgerður segir markmið kennara og skólastjórnenda tvíþætt. Að nemendur missi sem minnst annars vegar úr sínum félagslegu samskiptum við jafnaldra og hins vegar úr námi. mbl.is/Hari

Einangrun hvorki góð ungum né gömlum

Þorgerður segir markmið kennara og skólastjórnenda tvíþætt. Að nemendur missi sem minnst annars vegar úr sínum félagslegu samskiptum við jafnaldra og hins vegar úr námi. Í dag er starfsdagur í flestum grunnskólum og liggja skólastjórnendur, kennarar og fleiri yfir lausnum á því hvernig er hægt að uppfylla markmiðin tvö, ákvæði reglugerðarinnar og sóttvarnaaðgerða.

„Við erum algjörlega sammála því grundvallarmarkmiði að við þurfum líka að finna okkur leiðir til þess að lifa með þessari veiru. Við vitum auðvitað ekkert hvenær við náum tökum á þessu en við þurfum að hafa í huga að til þess að hámarka skólastarf gagnvart nemendum þá þurfum við auðvitað að fækka sem við mögulega getum því að nemendur lendi í sóttkví, og jafnvel trekk í trekk.“

Óttast kennarar um heilsu barna og jafnvel sína eigin?

„Við óttumst bæði um líkamlega og andlega heilsu barna. Þess vegna erum við þeirrar skoðunar að við þurfum að huga að þessum tveimur markmiðum. Skólinn er sá griðastaður sem börnum er nauðsynlegt að eiga aðgengi að. Það að vera til dæmis lokaður í sóttkví í allt að 14 daga er hvorki gott fyrir ungan né gamlan, hvað þá að veikjast. Við erum alltaf að horfa á það að þarna þurfum við að hámarka það sem við getum með veiruna hangandi yfir okkur. Það er verkefni sem við erum auðvitað öll í að reyna að finna út úr,“ segir Þorgerður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert