Ný eftirlitsflugvél konunglega breska flughersins, af gerðinni Poseidon MRA1, hefur verið nefnd „Spirit of Reykjavik“, eða Andi Reykjavíkur.
Er þetta gert til að minnast hlutverksins sem íslenska höfuðborgin og íbúar hennar léku í sigri Bandamanna í orrustunni um Atlantshafið, að því er segir á vef flughersins.
Þar segir að í heimsstyrjöldinni síðari hafi flugdrægni hamlað því að flugáhafnir gætu haft eftirlit með Norður-Atlantshafi frá stöðvum sínum í Bretlandi. Kafbátar Þjóðverja hafi því getað siglt óáreittir um hafsvæðið og ráðist á skip Bandamanna.
Nýr flugvöllur, sjóflugvélastöð og eldsneytisstöð í Reykjavík hafi aukið drægni flugvéla hersins og um leið hafi þýskir kafbátar verið innan seilingar þeirra.
Nánar á vef flughersins.