Anna Steinsen fyrirlesari, sem hefur unnið með börnum og unglingum í 20 ár, hvatti foreldra sem eru heima með börnum sínum á unglingsaldri í kórónuveirufaraldrinum til að hætta að skipta sér endalaust af þeim.
„Þetta verður bara leiðinlegt í rauninni fyrir þau og okkur líka,“ sagði Anna. Hún nefndi að heimavinna foreldra geti verið krefjandi og það þeir þurfi að passa upp á andlega heilsu og „aðallega að við séum ekki orðin leiðinleg“.
Hún hvatti foreldra til að tala við börnin sín og unglinga af meiri jákvæðni og bjartsýni og hlusta á það sem þau segja. Tækifæri séu til staðar þótt tímarnir séu erfiðir. „Bjartsýni og von fóstrar seiglu og nú þurfum við þrautseigju og seiglu til að komast í gegnum þennan tíma.“
Hún bætti við að of mikið sé um það að „fíflunum“ sé að fjölga í kringum okkur. Þar átti hún við að fólk hafi allt á hornum sér í tengslum við veiruna og að hinn og þessi sé ekki að haga sér nógu vel.
Anna hvatti fólk einnig til að brosa meira og dansa. „Settu tónlist á og dansaðu eins og enginn sé morgundagurinn,“ sagði hún og tók fram að ef fólk líður svo illa að það getur það ekki á það að biðja um hjálp.
Einnig hvatti hún fólk sem á maka til að fara á stefnumót, kyssast á bak við tré eða dansa úti í náttúrunni.