Tekist á um sóttvarnaaðgerðir

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir mikilvægt að aðgerðir séu …
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir mikilvægt að aðgerðir séu teknar til efnislegrar meðferðar í þinginu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Andersen þingmaður Sjálfstæðisflokksins spurði heilbrigðisráðherra í dag hvort óheppilegt væri að almannavarnir gæfu út tilmæli til almennings sem ganga framar núgildandi sóttvarnareglum í reglugerð heilbrigðisráðherra. 

Heilbrigðisráðherra sat fyrir svörum á Alþingi í dag þar sem þingmenn gagnrýndu og ræddu sóttvarnarráðstafanir stjórnvalda. Steig Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata einnig upp í pontu og taldi liðinn ekki nægja til þess að þingmenn gætu tekið ráðstafanir stjórnvalda til efnislegrar meðferðar.

„Ég vil benda á að þingið er meira en bara málstofa. Þingið hefur löggjafar- og eftirlitshlutverki að gegna gagnvart framkvæmdavaldinu,“ sagði Sigríður en heilbrigðisráðherra hefði lagt heldur mikla áherslu á að þingið væri einungis umræðuvettvangur. 

Talaði Sigríður einnig um að aðgerðirnar feli í sér miklar takmarkanir á réttindum manna, ef til vill þær mestu í Íslandssögunni, og því væri eðlilegt að þær yrðu teknar til efnislegrar meðferðar í þinginu.

„Við hvílum á mjög skýrri lagastoð“

Svaraði Svandís á þá leið að hún hafi rætt um hlutverk Alþingis og þætti miður ef háttvirtur þingmaður hafi misst af þeirri umræðu. Hún kvaðst sammála því að aðgerðirnar væru harðar og bætti við:

„En það liggur líka fyrir í úttekt Páls Hreinssonar að við hvílum á mjög skýrri lagastoð í þeim ákvörðunum sem við erum að taka, svo lengi sem við gætum jafnræðis og meðalhófs og það sem við höfum gert í þessum aðgerðum allar götur og munum gera áfram,“ sagði Svandís og minntist í kjölfarið á að lýðræðisríki í nágrenni við Ísland, Bretland nú síðast, hafi lagt til allsherjarlokun til nokkurra vikna en sú leið hafi ekki verið farin hér á landi.

Svaraði Sigríður því til að skýrsla Páls Hreinssonar lögfræðings, um valdheimildir yfirvalda í faraldrinum, sé afdráttarlaus um takmörk yfirvalda. „Sú skýrsla er afdráttarlaus um það að aðgerðir takmarkast mjög um þann tíma og neyðarástand sem nú er uppi,“ sagði hún.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bíði svara

Tók Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata þá einnig til máls og byrjaði á því að fagna umræðunni og taldi fundinn gagnlegan.

„En er hann nægur til þess að við fáum þær upplýsingar sem við þurfum til þess að sinna skyldum okkar hér? Að sjálfsögðu ekki,“ sagði hann.

Bætti hann við að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi kallað eftir svörum frá heilbrigðisráðherra um hvenær ráðist verði í breytingar á sóttvarnarlögum, í samræmi við ábendingar umboðsmanns Alþingis.

„Umræðan er gagnleg en við þurfum að halda áfram að fá inn spurningar og svör. Það er ekki hægt að gera það undir þessum lið nema mjög takmarkað,“ sagði Jón.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert