„Það er mjög ánægjulegt að það er mikil aðsókn í Heiðmörk og við leggjum áherslu á að það sé pláss fyrir alla á þessu fallega svæði,“ segir Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, í samtali við mbl.is. „Það kallar fyrst og fremst á gott skipulag á stígakerfinu þar sem umferð er skilgreind og þar sem leiðir liggja saman þurfa allir hópar að sýna tillitssemi og virðingu.“
Tilefnið eru skrif Bjarna Þórs Bjarnasonar sóknarprests í Morgunblaðið í dag en þar bendir hann á þá hættu sem farin er að skapast við það að hjólreiðafólk noti göngustíga í auknum mæli í Heiðmörk. Hann segir hjólreiðafólk oft koma á miklum hraða fyrir horn og bara spurningu um tímasetningu hvenær slys verði á fólki.
Auður segist fagna því að Heiðmörk sé orðin svo vinsæl en eftir að samkomutakmarkanir skullu á og líkamsræktarstöðvum var lokað hafi starfsfólk í Heiðmörk séð mikla aukningu á notkun í stígakerfinu. Þá segir Auður bílastæði alla jafnan full um helgar.
„Auðvitað þykir okkur leitt að heyra að fólk upplifi sig í hættu og við höfum markað okkur ákveðna stefnu í þessu varðandi stígakerfið okkar. Við erum með sérstaka hjólastíga, hjólreiðafólkið á að nýta þá en á göngustígum er göngufólk í fullum rétti og þar ber hjólreiðafólki bæði að hjóla hægt og að víkja. Enn og aftur snýst þetta allt um tillitssemi,“ segir Auður innt eftir viðbrögðum við skrifum Bjarna.
Þá segir Auður áfram unnið að uppbyggingu stíga, meðal annars hjólreiðastíga. Hún segir hjólreiðastíga vel merkta og að það eigi ekki að fara á milli mála hvaða stígar séu ætlaðir undir hvað.
Hafið þið áhyggjur af slysahættu á göngustígum í Heiðmörk?
„Já vissulega. Umferð hjólreiðafólks sem er að stunda keppnisæfingar á ekki heima á göngustígakerfi Heiðmerkur. Þessir þröngu skógarstígar sem eru fyrst og fremst göngustígar og merktir sem slíkir og umferð hjólreiðafólks og hjólreiðaæfingar eiga að fara fram á merktum hjólreiðastígum. Okkur er umhugað um öryggi þeirra sem stunda skóginn og biðjum alla um að sýna tillitssemi,“ segir Auður.