Rannsókn vísað til héraðssaksóknara

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur vísað máli tengdu manni í Hafnarfirði á mánudag til rannsóknar hjá héraðssaksóknara. Lögreglan er sökuð um að hafa beitt harðræði við handtökuna. 

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að fjórir lögregluþjónar, sem handtóku karlmann við Hvaleyrarholt í Hafnarfirði hafi gengið allt of langt í aðgerðum sínum að sögn þriggja sjónarvotta.

„Þetta var ógeðslegt, eins og í bíómynd,“ segir sjónarvottur sem ekki vill láta nafns síns getið. Hann lýsir því hvernig einn lögregluþjónanna beitti piparúða á manninn og annar lögregluþjónn sló hann ítrekað í höfuðið með kylfu þar til hann rotaðist og féll í jörðina.

„Vegna umfjöllunar Fréttablaðsins í dag um handtöku manns í Hafnarfirði sl. mánudag vill lögreglan á höfuðborgarsvæðinu taka fram að málinu hefur þegar verið vísað til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu getur því ekki tjáð sig frekar um málið á meðan svo er.

Á meðal málsgagna eru upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna á vettvangi,“ segir í yfirlýsingu sem lögreglan hefur sent frá sér vegna málsins.

Fréttablaðið greinir frá því að stöðvarstjóri lögreglunnar í Hafnarfirði staðfesti að til átaka hafi komið milli lögreglunnar og manns sem hafi verið stöðvaður vegna gruns um vörslu fíkniefna og sagst vera með Covid-19. Var þá kallað eftir Covid-bílnum. Að sögn sjónarvotta braut lögreglan rúðu í bílnum og í kjölfarið hófust átök.

Einn lögregluþjónanna beitti piparúða, annar fékk efnið í augun og sveiflaði kylfu sinni og sló manninn ítrekað í höfuðið sem féll í fangið á lögregluþjóninum og svo á götuna. Allir fjórir lögregluþjónarnir héldu áfram að berja manninn eftir að hann missti meðvitund.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka