Sóknirnar eru kirkjan

Breiðabólstaðarkirkja. Safnaðarfólki þykir vænt um kirkjuna.
Breiðabólstaðarkirkja. Safnaðarfólki þykir vænt um kirkjuna. mbl.is/Sigurður Ægisson

„Ég held að okkur sem störfum í sóknum þjóðkirkjunnar í hinum dreifðu byggðum finnist að miðstýringin í Reykjavík sé stöðugt að aukast,“ sagði Óskar Magnússon, bóndi og rithöfundur á Sámsstaðabakka og formaður sóknarnefndar Breiðabólstaðarsóknar í Fljótshlíð til 15 ára.

Hann kvaðst geta í mörgu tekið undir gagnrýni séra Óskars Inga Ingasonar sóknarprests í Morgunblaðinu.

„Okkur finnst hlaðið undir miðstýringarvaldið á Biskupsstofu. Þar virðist vera hægt að bæta við starfsfólki og gjarnan án þess að auglýsa. Um leið er lítill áhugi á því sem er að gerast út um landið, þar sem kirkjan raunverulega stendur í lappirnar,“ sagði Óskar. Hann benti á að 264 sóknir væru hin raunverulega kirkja. „Kirkjan er ekki starfsmenn kirkjunnar í glerturninum í Katrínartúni 4, sem nú kallast K4 í bréfum biskups.“

Óskar taldi ekki rétt að alltaf væri haft mikið samráð um tillögur að veigamiklum breytingum eins og sagði í svörum kirkjunnar við gagnrýni séra Óskars. „Tillögur um sameiningar prestakalla hafa t.d. verið dregnar til baka vegna þess að upp kom sterk andstaða og kirkjustjórnin treysti sér ekki til að keyra málin í gegn. Þetta hefur m.a. gerst í kringum mig. Sama á við um sameiningar sókna. Ég tel að það sé almenn andstaða við sameiningu í litlu sóknunum, einfaldlega vegna þess að nærumhverfið skiptir máli. Fólkinu þykir vænt um sóknina, kirkjuna sína og kirkjugarðinn. Það gætir að þessu öllu í sjálfboðavinnu meira eða minna. Ef þetta verða stórar og ópersónulegar einingar missir fólk þessi tengsl og væntumþykjuna sem er grundvöllur starfsins í sóknunum. Þetta er kristið fólk sem þykir vænt um kirkjuna sína og eignir hennar og stundar störf sín af kærleika.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert