Alls greindust 25 ný kórónuveirusmit innanlands í gær. Þar af voru 20 í sóttkví við greiningu, eða 80%. Tekin voru 1.456 sýni innanlands og er hlutfall greindra sýna því um 1,7% eða svipað og síðustu daga.
Fólki í einangrun heldur áfram að fækka og eru nú 710, en voru 762 í fyrradag. Á spítala eru 78 með kórónuveiruna og af þeim eru fjórir á gjörgæslu. Þá eru 989 í sóttkví og 1.011 í skimunarsóttkví en það eru þeir sem þurfa að fara í sóttkví á milli skimana á landamærunum.
Nýgengi veirunnar, fjöldi smita síðustu 14 daga á hverja 100.000 íbúa, lækkar milli daga og er nú 164,2. Ísland er nú í sjötta sæti af 31 Evrópulandi yfir lægst nýgengi en var fyrir stuttu meðal þeirra ríkja þar sem nýgengið var hæst. Breytinguna má þó einkum rekja til þess að staðan hefur farið snarversnandi víða um álfuna þótt hún hafi vissulega batnað lítillega hér á landi.
Aðeins greindist eitt smit á landamærum og hafa ekki verið færri í tvær vikur. Beðið er niðurstöðu úr mótefnamælingu. Tekin voru 264 sýni á landamærum (skimun 1 og 2 samanlagt), en það er nokkuð minna en síðustu daga.