Alexandra Ýr van Erven var kjörin ritari Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins sem fer fram um helgina. Alexandra er 26 ára gamall háskólanemi í stjórnmálafræði og ensku. Hún hefur gegnt forystuhlutverki innan Stúdentaráðs og Röskvu, samtaka félagshyggjufólks við Háskóla Íslands.
Kjartan Valgarðsson var kosinn nýr formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, en hann hefur áður setið í framkvæmdastjórn flokksins auk þess að hafa verið gjaldkeri og formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík. Hann hefur einnig gegnt stöðu formanns fulltrúaráðs flokksins í Reykjavík.
Ný framkvæmdastjórn var einnig kosin á landsfundinum.
Nýkjörnir aðalmenn í framkvæmdastjórn flokksins eru Hildur Þórisdóttir, Magnús Árni Skjöld Magnússon, Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, María Hjálmarsdóttir, Ellen Calmon og Valgarður Lyngdal.
Varamenn í framkvæmdastjórn eru Hörður J. Oddfríðarson, Hildur Rós Guðbjargardóttir, Guðni Rúnar Jónasson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Helena Mjöll Jóhannsdóttir og Kikka K.M. Sigurðardóttir.
Þá var Hákon Óli Guðmundsson sjálfkjörinn gjaldkeri flokksins, en hann hefur gegnt þeirri stöðu síðan 2016.