Kærðu hvort annað eftir stimpingar á árshátíð

Héraðsdómur Vestfjarða sýknaði konu fyrir líkamsárás gegn mági sínum í …
Héraðsdómur Vestfjarða sýknaði konu fyrir líkamsárás gegn mági sínum í gær. Af vef Bæjarins besta

Héraðsdómur Vestfjarða sýknaði í gær, föstudag, konu sem ákærð var fyrir að slá mág sinn í hálsinn eða hnakka á árshátíð í apríl árið 2019. Kæran var lögð fram rúmum mánuði eftir að manninum var birt ákæra fyrir að kýla konuna í andlitið á dansgólfi á sömu árshátíð. 

Í dómi héraðsdóms eru rakin mikil illindi á milli mágkonunnar og mágsins, en hún er gift bróður hans. Þar kemur fram að mikill vinskapur hafi verið á milli þeirra en slitnað hafi upp úr þeirri vináttu fyrir um þremur árum. 

Konan neitaði sök fyrir dómi og sagðist ekki hafa slegið hann við barinn. Hún greindi hins vegar frá því að fyrr um kvöldið hafi hún hallað sér upp að honum á dansgólfinu og sagt honum að drulla sér burt. Þá hafi hann kýlt hana í andlitið. Hún lagði fram kæru gegn honum fyrir það. Sú kæra hefur ekki verið tekin fyrir í héraðsdómi. 

Konan bætti við að hún hefði hitt hann nokkrum sinnum á árshátíðinni og gefið honum „fokkmerki“. 

Í vitnisburði sínum fyrir dómi sagði karlmaðurinn að mágkona hans hefði gengið upp að honum þar sem hann stóð með móðursystur sinni við barinn og slegið hann fyrirvaralaust á ofanverðan hálsinn. 

Héraðsdómur bendir á að karlmaðurinn hafi ekki leitað til læknis eftir árásina og að hann hafi sagt í vitnisburði sínum að áverkar hefðu verið litlir sem engir. Einnig þyrfti að horfa til þess að hann hefði lagt fram kæruna um ári eftir að atvikið átti sér stað og aðeins lagt hana fram eftir að mágkona hans kærði hann fyrir líkamsárás. 

Aukinheldur bendir héraðsdómur á að þótt greinilegt sé að mikil illindi séu á milli brotaþola og ákærðu væri eina vitnið að meintri árás kona sem tengd væri honum nánum skyldleikaböndum. Konan var því sýknuð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert