„Við viljum hafa jafnaðarstefnuna eins og húsgögnin okkar í hæsta gæðaflokki: helst klassíska og norræna.“ Þetta sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, er hann ávarpaði fundargesti landsfundar flokksins nú fyrir skemmstu.
Fundurinn fer fram á netinu og lýkur síðar í dag. Stuttu áður hafði Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi verið endurkjörin varaformaður en hún hafði betur í kjörinu gegn Helgu Völu Helgadóttur þingkonu með um 60% atkvæða. Logi var sjálfur endurkjörinn formaður í gær með ríflega 96% atkvæða enda einn í kjöri.
Logi sagði tímana erfiða. Hugur hans og allra í Samfylkingunni væri hjá þeim sem ættu um sárt að binda og hefðu þurft að færa fórnir. Einkum þeim sem hefðu misst ástvin, en einnig þeim sem hefðu einangrast félagslega, þeim sem ynnu framlínustörf undir miklu álagi, þeim sem hefðu misst vinnuna eða berðust í bökkum með eigin atvinnurekstur. „Ég vil að þið vitið að Samfylkingin stendur með ykkur. Okkur er ekki sama og við viljum að þeim sé hjálpað sem lenda verst í því á þessum erfiðu tímum.“
Þótt grunnstefið í stefnu flokksins sé klassísk norræn jafnaðarstefna sagði Logi að hún væri engu að síður í stöðugri þróun og þurfi að svara kalli tímans hverju sinni. „Við viljum bara það sem virkar — það sem við vitum að virkar,“ sagði Logi.