Ágúst Ólafur Ágústson, þingmaður Samfylkingarinnar, vill að loðdýrarækt verði hætt á Íslandi. Þetta segir hann í samtali við mbl.is. Ágúst Ólafur birti fyrr í dag hugleiðingar sínar um ræktun minka og annarra loðdýra á Íslandi á Facebook í kjölfar fregna um að kórónuveiran hafi smitast í minka og minkar í kjölfarið smitað menn af stökkbreyttri veirunni.
Í vikunni var greint frá því að stökkbreyting á kórónuveirunni hafi greinst í fólki sem hafði smitast af minkum í Danmörku. Í kjölfarið var ákveðið að slátra öllum minkum þar í landi. Ástæðan er sú að vísindamenn telja að bóluefnin sem nú eru í þróun muni ekki koma til með að skila tilætluðum árangri gegn hinni stökkbreyttu veiru. Ráðgert er að hefja skimun fyrir veirunni á minkabúum á Íslandi í vikunni.
Ágúst segir að loðdýrarækt og svipuð starfsemi sé angi af umhverfisverndarmálum sem sjaldan komist inn á borð Alþingis. Í samtali við mbl.is sagðist hann vilja koma umræðunni inn á þing.
„Á Íslandi eru nú starfrækt 9 minkabú en voru þau 31 talsins fyrir 6. árum. Í dag eru bein störf þar undir 30 talsins og verður það að teljast afskaplega lítið í ljósi þess fórnarkostnaðs sem hugsanlega verður af þessari ræktun.
Ég vil einnig fullyrða að ræktun minka vegna skinns þeirra sé algjör tímaskekkja og ekki í samræmi við nútímann þegar kemur að dýravernd. Dýrin eru ræktuð í litlum búrum sem er þeim engan veginn eðlislægt,“ segir Ágúst.
Hann bendir einnig á að fjölmargir fataframleiðendur séu löngu hættir að nota skinn úr lifandi dýrum í framleiðslu sína. „Því til viðbótar hefur skinnaverð verið mun lægra en framleiðslukostnaður skinnanna og erfitt að sjá nokkra réttlætingu á þessum iðnaði,“ segir Ágúst.
Hann leggur því til að hið opinbera geri þeim fáu loðdýrabændum sem eftir eru kleift að hætta alfarið sinni starfsemi með styrk og segir að hægt sé að hugsa sér svipað fyrirkomulag og þegar ríkið greiðir bændum sem þurfa að skera niður sauðfé vegna riðu.
„Minkarækt var bönnuð með lögum á Íslandi árið 1950 og leyfð að nýju árið 1969. Norðmenn hafa ákveðið að banna þessa ræktun frá og með 2025 og önnur lönd í Evrópu hafa einnig tekið slík skref.
Mér finnst umhverfismál eigi ekki einungis að snúast um grjót og urð heldur einnig um dýrin. Á það hefur svo sannarlega vantað hér á landi. Hættum því loðdýrarækt á Íslandi,“ segir Ágúst.