„Sjáum hvað gerist næstu daga,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. Sextán greindust með Covid-19 innanlands í gær en núgildandi takmarkanir vegna veirunnar gilda til 17. nóvember.
Sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna að farið yrði hægt í að aflétta aðgerðum. Hann skilar væntanlega tillögum þess efnis síðar í vikunni en kvaðst ekki tilbúinn að fara nánar út í hverjar þær verða.
Ekki sé tímabært að slaka eitthvað á aðgerðunum fyrr en í næstu viku og sagði Þórólfur fólki að búast áfram við töluverðum takmörkunum þótt einhverju verði aflétt.
Þórólfur skorar á fólk að fara áfram eftir reglum og leiðbeiningum en þannig verði hægt að halda góða aðventu og jól.
Hann hamrar á reglunum, forðast sameiginlega snertifleti og mannamót. Halda sig heima ef fólk finnur fyrir veikindum en þetta sé forsenda fyrir góðum árangri áfram.
Alls hafa 13 látist af völdum veirunnar í þriðju bylgjunni en tíu létust í þeirri fyrstu í vor. Þórólfur sagði hlutfall látinna nú hærra en það var í vor en fimm létust um helgina.