Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur upplýst fjölda innbrota í Sunnusmára í Kópavogi í síðasta mánuði. Um var að ræða innbrot í bæði geymslur og hjólageymslur og stálu þjófarnir öllu steini léttara, m.a. reiðhjólum, matvælum og húsmunum af ýmsu tagi.
Í fyrstu var á litlu að byggja við rannsókn málsins, en með þrautseigju og útsjónarsemi tókst lögreglu að komast á slóð hinna óprúttnu aðila, sem reyndust vera tveir karlar á fertugsaldri, en þeir hafa báðir játað sök, að því er lögreglan greinir frá í tilkynningu.
Framkvæmdar voru húsleitir í þágu rannsóknarinnar og var lagt hald á mikið af þýfi. Undanfarið hefur verið unnið að því að koma hlutunum aftur í réttar hendur, en eitthvað af þýfinu hafði þegar verið selt á sölusíðum á netinu, segir lögreglan ennfremur.
„Af því tilefni hvetur lögreglan fólk til árvekni þegar keyptir eru hlutir á sölusíðum á netinu, t.d. að seljandi sýni kvittun fyrir vörunni. Of oft gerist það að mati lögreglu að þýfi finnst í fórum kaupenda sem bera við að þeir hafi ekki vitað að varan var stolin, vita ekki nafn seljanda, heimilisfang eða annað sem að gagni má koma við rannsókn málsins, en finnst engu að síður sárgrætilegt og ósanngjarnt að varan sé af þeim tekin og komið í vörslu réttmæts eiganda,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.