Ingimar Skúli Sævarsson hefur verið fundinn sekur um meiri háttar brot gegn skattalögum og fyrir peningaþvætti, sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður einkahlutafélagsins Verkleigunnar.
Dómur þessa efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur um miðjan október.
Upphaflega stóð til að þingfesta málið í mars en vegna farsóttar og samkomubanns var því frestað utan réttar um ótiltekinn tíma og var málið síðan þingfest 7. maí.
Óskaði Ingimar þá eftir fresti til að taka afstöðu til ákærunnar og var málinu því frestað til 28. maí. Í þinghaldi þann dag neitaði hann sök og var verjanda hans veittur frestur til 3. september til að skila greinargerð.
Þeirri fyrirtöku málsins var svo frestað ótiltekið utan réttar að beiðni verjandans.
Loks, við þinghald í málinu 30. september, breytti Ingimar afstöðu sinni og játaði skýlaust sök sína.
Samkvæmt ákæru málsins stóð Ingimar skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum fyrir Verkleiguna frá mars til desember árið 2017 og komst þannig hjá því að skila ríkissjóði 57 milljónum króna í virðisaukaskatt.
Þá var hann einnig ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslugreinum fyrir fyrirtækið og þannig komist hjá því að greiða staðgreiðslu opinberra gjalda upp á 30 milljónir frá október til desember þetta sama ár.
Sömuleiðis var hann ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa ráðstafað peningunum sem voru ávinningur af fyrrnefndum brotum í þágu rekstrar félagsins, og fyrir brot gegn skattalögum og lögum um bókhald með því að hafa á árunum 2014-2018 staðið skil á efnislega röngum skattframtölum fyrir sig.
Vantaldi hann á þessum árum tekjur frá sjálfstæðum atvinnurekstri um 101 milljón og möguleg rekstrargjöld um 30,5 milljónir og tekjur frá fyrrnefndu fyrirtæki um 7,3 milljónir árin 2017 og 2018. Með þessu vantaldi hann tekjuskattstofn sinn um 66 milljónir og komst undan að greiða tekjuskatt og útsvar upp á 27,5 milljónir.
Við ákvörðun refsingar í héraðsdómi var til refsimildunar litið til þess að hann hefði ekki áður gerst brotlegur við lög, skýlausrar játningar hans fyrir dómi og einnig þess að nokkuð var um liðið síðan hann framdi elstu brotin.
„Til þyngingar er horft til þess að brot hans námu háum fjárhæðum og náðu yfir langt tímabil. Í ljósi stöðu ákærða innan félagsins er því hafnað að litið verði til þess að hann hafi lítið komið nálægt skattskilum félagsins hluta þess tímabils er ákæra málsins tekur til,“ segir í dóminum.
Þótti því hæfilegt að dæma hann til fangelsisvistar í tvö ár, en skilorðsbinda dóminn til tveggja ára á sama tíma.
Þar að auki var hann dæmdur til að greiða 343.699.716 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins, ella sæta fangelsi í tólf mánuði.
Málefni starfsmannaleigunnar hafa áður ratað á síður fjölmiðla, en eftir að félagið varð gjaldþrota árið 2018 stofnaði Ingimar starfsmannaleiguna Manngildi sem varð gjaldþrota seint á síðasta ári.
Eftir gjaldþrotið stofnuðu nokkrir fyrrverandi starfsmenn Verkleigunnar starfsmannaleiguna Menn í vinnu, sem varð aðalumfjöllunarefni fréttaskýringaþáttar Kveiks um dökkar hliðar íslensks vinnumarkaðar.