Landssamband bakarameistara gerir alvarlegar athugasemdir við ummæli framkvæmdastjóra OECD þess efnis að bakaraiðn ætti ekki að njóta lögverndar. Ummælin féllu fyrr í dag á kynningarfundi um niðurstöður samkeppnismats OECD á samkeppnishindrunum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu.
Í tilkynningu frá Landssambandi bakarameistara segir að sambandið geri ennfremur alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð Efnahags- og framfarastofnunar OECD um framkvæmd á sjálfstæðu samkeppnismati á því regluverki sem gildir á sviðum byggingarstarfsemi og ferðaþjónustu á Íslandi. „Í niðurstöðum sínum til úrbóta á þeim sviðum leyfir stofnunin sér að setja fram tillögu þess efnis að afnema eigi löggildingu bakara. Ekki er annað hægt en að furða sig á þessum starfsháttum stofnunarinnar sem með þessari tillögu virðist fara langt út fyrir verksvið sitt,“ segir í tilkynningunni.
Landssamband bakarameistara bendir á að í íslensku samfélagi sé „almennt lögð rík áhersla á fagmennsku, gæði, öryggi, neytendavernd og menntun. Kapp er einnig lagt á að auka fjölda iðnmenntaðra og mæta þannig þörf markaðarins fyrir slíkt vinnuafl. Lögverndun iðngreina eru í raun ákveðin undirstaða í þeirri vegferð enda er markmið þeirra að tryggja gæði sem og fagleg og örugg vinnubrögð í iðngreinum.“
Landssamband bakarameistara segist fagna umræðu um mikilvægi löggildingar, enda sé tilgangur þess kerfis að ábyrgjast gæði og fagmennsku. Hins vegar segir sambandið mikilvægt að sú umræða fari fram á réttum vettvangi, en sé ekki „kastað fram með óábyrgum hætti eins og Efnahags- og framfarastofnun OECD leyfir sér að gera.“