Alls hafa 159 börn í leikskólum og grunnskólum Reykjavíkur fengið Covid-19 í haust. Af þeim er 117 batnað en 42 voru með virkt smit í byrjun vikunnar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í minnisblaði sem Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundaráðs, kynnti á fundi skóla- og frístundaráðs á þriðjudag. Tölurnar eru frá deginum áður, 9. nóvember. Þetta er vel undir 1% allra þeirra sem hafa smitast af Covid-19 í haust.
Á mánudaginn voru 17 starfsmenn í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum með Covid en alls hafa 85 smitast í haust. Af þeim er 68 batnað.
Í þriðju bylgju hafa 16 leikskólabörn smitast af starfsmönnum leikskóla og 5 af samnemanda. Á yngsta stigi grunnskóla (1.-4. bekkur) hafa 9 börn smitast af starfsmanni en 3 af samnemanda.
Á miðstigi (5.-7. bekkur) hafa 36 börn smitast af starfsmanni grunnskóla en 10 af samnemanda. Á unglingastigi (8.-10. bekkur) má rekja 14 smit nemenda til starfsmanna skóla en 10 til starfsmanna.
Alls hafa 75 börn á leik- og grunnskólaaldri í Reykjavík smitast af starfsmanni og 34 af samnemanda.
Á mánudag var Vogaskóli eini skólinn á höfuðborgarsvæðinu lokaður. En hann var lokaður að hluta vegna smits starfsmanns og tveggja nemenda á unglingastigi. Í Vogaskóla hafði áður komið eitt smit meðal starfsmanna en það er eldra smit og hafði ekki áhrif á starfsemi skólans. Um helmingur starfsmanna og nemenda fóru í sýnatöku á þriðjudag og miðvikudag og ekkert smit kom upp þá en aðrir fara í sýnatöku síðar, það er á morgun.