Nýtt spálíkan Háskóla Íslands um þróun kórónuveirufaraldursins var birt nú rétt í þessu. Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við skólann, segir að líkanið sýni áframhaldandi fækkun daglegra smita, en að áfram verði óvissa, ekki síst vegna þess að sveiflur hafi verið miklar í tölum undanfarið.
„Við erum núna að segja að það eigi að vera möguleiki á lágum tölum í byrjun desember eða upp úr mánaðarmótum,“ segir Thor í samtali við mbl.is.
Líkanið nær rétt fram yfir mánaðarmótin og segir Thor að ef fram haldi sem horfi með fækkun daglegra smita ætti ástandið að verða orðið talsvert betra í desember. Segir hann að aðalatriðin varðandi hvort spálíkanið gangi eftir sé það utanumhald sem sé með smitrakningum og sóttkví. Segir Thor að gríðarlega mikilvægt sé að fólk sé sett í sóttkví og greint þar frekar en að smit dreifist í samfélaginu. Þá séu þau ekki að sjá jafn kröftuga dreifingu smita nú og var áður í þriðju bylgjunni.
Spurður hvort að þessi niðurstaða þýði að Íslendingar geti horft björtum augum til síðari hluta desember segir Thor að tölurnar gefi jákvæða sýn, en að það þurfi þó að horfa á það sem sé að gerast í löndunum í kringum okkur. Þá sé alla jafna talsvert um ferðalög í kringum hátíðirnar, meðal annars íslenskir stúdentar að koma heim í jólafríi eftir nám erlendis. Víða þar sem íslenskir nemendur séu fjölmennir, svo sem í Danmörku, Bretlandi, Svíþjóð, Þýskalandi og Hollandi séu tölur mjög neikvæðar og faraldurinn á uppleið. Segir hann óhugnanlegan mikinn vöxt þar og að smit þaðan gætu breytt stöðunni.