„Þvílíkur þvættingur, þvílíkur málflutningur,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins meðal annars en til nokkuð harðra orðaskipta kom á milli hans og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, í umræðum um stöðu kvenna í Póllandi.
Þorgerður Katrín spurði sinn gamla flokksbróður hvort hann hefði ekki áhyggjur af stöðunni í Póllandi en stjórnlagadómstóll þar í landi komst nýverið að því að þungunarrof vegna fósturgalla stangast á við stjórnarskrá.
Þorgerður Katrín sagði málið væntanlega viðkvæmt innan hennar gamla flokks og benti á að nokkrir þingmenn flokksins hefðu greitt atkvæði gegn þungunarrofsfrumvarpi heilbrigðisráðherra í fyrra.
„Ríkisstjórnarflokkurinn í Póllandi, Lög og réttlæti, sem er reyndar systurflokkur Sjálfstæðisflokksins í ACRE, þ.e. blokk íhaldsflokka í Evrópu sem tortryggja m.a. allt Evrópusamstarf, hefur lengi haft á stefnuskrá sinni að þrengja enn að rétti kvenna til þungunarrofs,“ sagði Þorgerður Katrín.
„Er ráðherra á þeirri skoðun að konur eigi algerlega tilneyddar að ljúka meðgöngu þrátt fyrir að ljóst sé að barn muni ekki lifa það af eða töluverð áhætta geti fylgt því, bæði fyrir móður og barn?“
Bjarni sagðist ekki átta sig á því hvert Þorgerður Katrín væri að fara og það væri með hreinum ólíkindum að gefa það í skyn að nokkrir þingmenn hans flokks styddu aðgerðirnar í Póllandi vegna þess að þeir hefðu ekki stutt frumvarp heilbrigðisráðherra.
„Það er algerlega með ólíkindum að hlusta á þetta, þetta er einhver ömurlegasta tilraun sem ég hef hlustað á lengi til að tengja Sjálfstæðisflokkinn við eitthvert hneykslismál út í Evrópu. Má ég biðja um að þetta sé á aðeins hærra plani?“ sagði Bjarni.
Hann sagði að reglurnar í Póllandi væru ekki til fyrirmyndar og að hann hefði, líkt og forsætisráðherra, áhyggjur af stöðu kvenna vegna þess.
„Ég held að fjármálaráðherra hafi farið öfugu megin fram úr rúminu,“ sagði Þorgerður Katrín og ítrekaði spurningu sína hvort Bjarni hefði áhyggjur af stöðu kvenna í Póllandi.
„ Í fyrsta lagi þá ætla ég að segja þetta um stöðu kvenna í Póllandi: Ég hef sömu áhyggjur og forsætisráðherra af þessari breytingu,“ sagði Bjarni og hélt áfram:
„Ég biðst forláts en það hefur ekkert með málið að gera hvort Sjálfstæðisflokkurinn er í flokkasamstarfi á vettvangi Evrópusamvinnu með einhverjum flokkum og það þýði að hann fylgi sömu stefnu og þeir í öllum málaflokknum. Þetta er bara ekki boðleg nálgun. Þetta er bara aum og ömurleg tilraun til að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn út af einhverju sem er að gerast úti í Póllandi.“