Þær flugvélar sem flugfélagið Norlandair ehf. býður fram til áætlunarflugs uppfylla allar kröfur sem gerðar voru í útboðsgögnum Vegagerðarinnar. Þetta segir í yfirlýsingu frá Vegagerðinni sem birt er í dag.
Tilefnið er að í gær voru tilkynntar niðurstöður úr útboði Vegagerðarinnar á áætlunarflugi milli Reykjavíkur og þriggja staða: Gjögurs, Bíldudals og Hafnar í Hornafirði. Svo fór að gengið var að samningum við Erni um fluglegginn Reykjavík–Höfn, en flugfélagið Norlandair um hina tvo.
Áður hafði Vegagerðin tekið tilboði Norlandair í alla leggina, en flugfélagið Ernir í kjölfarið kært þá niðurstöðu. Í viðtali við Ríkisútvarpið í síðasta mánuði sagði Hörður Guðmundsson, forstjóri Ernis, að í ljós hefði komið að Norlandair hefði ekki verið með vélar sem uppfylltu þær kröfur sem gerðar eru. Því hefði niðurstaðan verið kærð.
Í yfirlýsingu Vegagerðarinnar er áréttað að kröfur, svo sem um jafnþrýstibúnað, burðargetu og farþegafjölda séu allar uppfylltar. Flugvélarnar séu samanburðarhæfar við þá vél sem fyrri rekstraraðili, þ.e. Ernir, hefur notað síðastliðin ár.