Auðvelt fyrir veiruna að komast inn

Alma Möller landlæknir segir mikilvægt að stofnanir skoði hvort þær …
Alma Möller landlæknir segir mikilvægt að stofnanir skoði hvort þær geti minnkað líkurnar á smitum. mbl.is/Árni Sæberg

Embætti landlæknis mun gera aðra rannsókn á hópsýkingu sem kom upp á Landakoti um miðjan október, til viðbótar við þá rannsókn sem Landspítali hefur þegar gert og kynnt var á blaðamannafundi í dag. Þetta segir Alma Möller landlæknir í samtali við mbl.is.

Í skýrslu Landspítala um hópsýkinguna segir að ástand hús­næðis, loft­skipta og aðbúnaðar á Landa­koti sé ófull­nægj­andi með til­liti til sýk­ing­ar­varna­sjón­ar­miða og að það hafi lík­lega verið meg­in­or­sök dreif­ing­ar smita inn­an Landa­kots. 

Eru líkur á því að önnur sambærileg hópsýking geti komið upp annars staðar á spítalanum eða í heilbrigðiskerfinu vegna svipaðra aðstæðna og eru á Landakoti?

„Það er auðvitað ekki hægt að útiloka það. Við vitum að það er auðvelt fyrir veiruna að komast inn en síðan ef aðstæður eru þannig þá getur hún dreifst, t.d. ef það eru mikil þrengsli og ónóg loftræsting en nákvæmlega hvernig staðan er á hverri einustu stofnunun hef ég ekki yfirsýn yfir,“ segir Alma. 

Ekki mannafli til að kanna ófullnægjandi aðstæður

Hún segir jafnframt að embætti landlæknis hafi ekki mannafla í það að kanna hvort ófullnægjandi aðstæður með tilliti til sýkingavarna séu víðar í heilbrigðiskerifnu. 

„Ég held að það sé miklu mikilvægara að stofnanirnar sjálfar skoði hjá sér og hvað þær geta gert til að minnka líkurnar á smitum.“

Er forsvaranlegt að halda áfram starfsemi á Landakoti, miðað við niðurstöður skýrslunnar?

„Nú skilst mér að það sé búið að gera heilmikið til að bregðast við. Það er auðvitað það sem þarf að fara yfir í dag og á allra næstu dögum, að skoða hvað er hægt að gera.“

Koma til með að skoða flutning á milli stofnana

Smit af Landakoti bárust bæði á Reykjalund og á hjúkrunarheimilið Sólvelli á Eyrarbakka. Ekkert er rætt um það í skýrslu spítalans um hópsýkinguna á Landakoti. 

Er það ekki eitt af því sem þarf að læra af? Hefur verið tekið fyrir slíkan flutning eða ákveðið að vinna hann með öðrum hætti?

„Því get ég ekki svarað en það er eitthvað sem við komum til með að skoða,“ segir Alma. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert