Ísland hefur verið tekið af rauðum lista breskra yfirvalda yfir þau lönd sem óhætt er að ferðast til. Það þýðir að þeir sem koma frá Íslandi til Bretlands þurfa ekki lengur að sæta tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins. Greint var frá þessum breytingum í gær en hið sama á við um nokkur lönd til viðbótar. Aftur á móti er Danmörk áfram álitin hættusvæði af breskum yfirvöldum.
Stjórnvöld í nokkrum ríkjum Evrópu vara þegna sína við því að skipuleggja ferðalög um jólin, of snemmt sé að segja til um hvert sé óhætt að fara vegna kórónuveirufaraldursins.
Í Svíþjóð hefur fólk verið beðið um að búa sig undir mögulegar ferðatakmarkanir yfir hátíðirnar en írsk og frönsk stjórnvöld segja of snemmt að segja til um það á þessari stundu.
Tæpar sex vikur eru til jóla og víða í Evrópu eru í gildi takmarkanir á ferðafrelsi og öðrum sóttvarnaaðgerðum sem ætlað er að hemja heimsfaraldurinn.
Í Portúgal hefur héruðum fjölgað þar sem útgöngubann er að næturlagi og frá og með mánudegi gilda harðar sóttvarnareglur í 75% landsins.
Sóttvarnalæknir Svíþjóðar, Anders Tegnell, segir að fólk verði að búa sig undir ferðatakmarkanir innanlands um jólin svo hægt sé að koma í veg fyrir að heilbrigðisþjónusta í einstökum héruðum ráði ekki við álagið ef alvarleg veikindi koma upp.
Í gær var tilkynnt um 40 dauðsföll í Svíþjóð vegna Covid-19 og hafa þau ekki verið svo mörg í fimm mánuði.
Bætt við klukkan 10:24 - í frétt BBC kemur fram að um dauðföll á einum degi sé að ræða en á vef sænska ríkissjónvarpsins kemur fram að um sé að ræða tilkynnt dauðsföll á einum sólarhring en ekki tekið fram hvort allt þetta fólk hafi dáið á sama sólarhring.
Tegnell segir að stóran hluti nýrra hópsmita í Svíþjóð megi rekja til einkasamkvæma. Hann segist vonast til þess að bann við sölu á áfengi á börum og skemmtistöðum eftir klukkan 22 muni ekki verða til þess að einkasamkvæmum fjölgi. Bannið tekur gildi um helgina.
Vara-forsætisráðherra Írlands, Leo Varadkar, segir að hann myndi ekki mæla með því í dag að Írar sem búa erlendis bóki flug heim um jólin. Of snemmt sé að ráðleggja slíkt eins og staðan er í augnablikinu.
Forsætisráðherra Frakklands, Jean Castex, tekur í svipaðan streng og segir að það sé of snemmt að segja til um hvort fólk geti keypt sér lestarmiða til að ferðast um jólin. Þær aðgerðir sem nú eru í gildi verða óbreyttar næstu tvær vikurnar en það væri óábyrgt að draga úr hömlum á þessari stundu.
Eins og reglunar eru í dag má fólk í Frakklandi aðeins fara að heiman til að sækja vinnu ef það getur ekki unnið heima. Eins má fólk kaupa nauðsynjavöru, sækja sér læknishjálp og æfa utandyra í einn klukkutíma á dag. Allar verslanir sem ekki selja nauðsynjavöru eru lokaðar, eins veitingastaðir og barir. Skólar og leikskólar eru aftur á móti opnir. Castex segir að væntanlega verði verslunum heimilt að hefja starfsemi að nýju 1. desember. Barir og veitingastaðir verði áfram lokaðir.