Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti frumvarp sitt um fæðingar- og foreldraorlof á ríkisstjórnarfundi nú í morgun og var frumvarpið samþykkt.
Frumvarpið kveður á um að fæðingarorlof verði lengt en að foreldrar skipti jafn milli sín fjölda mánaða í orlofi, hvort foreldri um sig fái þannig 6 mánaða orlof. Leyfilegt er þó að skipta á einum mánuði og fengi þannig annað foreldri sjö mánuði í orlof en hitt foreldri fimm. Þó eru gerðar undanþágur ef annað foreldri umgengst ekki barnið, sætir nálgunarbanni gagnvart hinu foreldrinu eða annað slíkt.
Í tilkynningu frá félags- og barnamálaráðuneyti segir að fjölmargar umsagnir hafi borist um frumvarpið í samráðsgátt stjórnvalda og tekur frumvarpið mið af þeim.
„Í ár eru tuttugu ár liðin frá gildistöku laga um fæðingar- og foreldraorlof, sem voru gríðarlega framsækin á þeim tíma en það var kominn tími til að endurskoða þau og færa til nútímans. Þetta frumvarp er stórt skref í þá átt og við viljum að Ísland sé góður staður til þess að eignast og ala upp börn, og með þessu frumvarpi erum við að auka enn á réttindi foreldra til samvista með börnunum sínum á fyrstu mánuðunum ævi þeirra,“ er haft eftir Ásmundi í tilkynningu frá ráðuneytinu.