„Við skulum þá tala um staðreyndir“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Tölum um staðreyndir, segir háttvirtur þingmaður. Við skulum þá tala um staðreyndir,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi í dag og minnti á að tekjujöfnuður á Íslandi væri mestur meðal OECD-ríkja.

Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins, gerði athugasemdir við það í óundirbúnum fyrirspurnartíma í dag að bankarnir væru að hækka vexti og ójöfnuður væri að aukast. 

„Algjörlega orðlaus“

„Nú ríða ríkisbankarnir á vaðið með að hækka vexti. Ég er algerlega orðlaus. Ég er algjörlega orðlaus yfir því hvað er verið að bera á borð fyrir okkur núna. Íslandsbanki ríður á vaðið. Landsbankinn auglýsir vaxtahækkun. Hér hefur forsætisráðherra, og ríkisstjórnin undir hennar forystu, talað um hvað hún hafi komið mikið til móts við þá sem minna mega sín í samfélaginu, komið til móts við fjölskyldurnar,“ sagði Inga. 

Hún spurði hvort Katrín væri sátt við það að undir hennar stjórn „skuli þessi þróun vera í bankakerfinu okkar, sem bitnar helst á fjölskyldunum og heimilunum í landinu sem síst skyldi? Og ef ekki, hvernig sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér að reyna að snúa þeirri öfugþróun við sem við erum að horfast í augu við núna?“

Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Arnþór

Aðgerðir stjórnvalda verði ekki til þess að auka ójöfnuð

Katrín benti á, að stýrivextir Seðlabankans hefðu aldrei verið lægri á sögulegum tíma. Enn fremur hefði ríkisstjórnin með aðgerðum sínum tryggt að bankarnir hefðu fullt svigrúm til að styðja við fyrirtækin í landinu. Katrín benti einnig á að Inga þekkti það vel að bankarnir væru ekki undir beinni yfirstjórn ríkisstjórnar, heldur væru þeir skipaðir sjálfstæðum stjórnum. Það hefði verið ákvörðun Alþingis á sínum tíma að mikilvægt væri að ekki væru pólitísk afskipti af bönkunum.

„Ég held að það sé mjög mikilvægt því að við erum vissulega stödd í djúpri kreppu og það skiptir miklu máli að þær aðgerðir sem stjórnvöld ráðast í til að bregðast við henni verði ekki til að auka ójöfnuð í samfélaginu, heldur einmitt að hlúa að þessum hópum,“ sagði Katrín. 

Spurði hvort það væri eðlilegt að lækka bankaskatt

Inga þakkaði forsætisráðherra þá fyrir „þessa ágætisframboðsræðu“. Hún sagði jafnframt, að staðreyndin væri sú að ójöfnuður væri að aukast og hann yxi dag frá degi. „Við erum hér með upp undir 25.000 einstaklinga sem eru að detta inn á atvinnuleysisskrá og forsætisráðherra nefnir það ekki einu einasta orði. Hún segir bara: Heyrðu, við ríkisstjórnin erum núll og nix og höfum ekkert um það að segja þótt við eigum hér tvo ríkisbanka. Við höfum sennilega heldur ekkert um það að segja þótt Seðlabankastjóri verji ekki betur fall krónu þannig að núna er fall krónunnar orðið tæplega 20%, sem fer beint út í verðlagið. Og á hverjum bitnar það helst?“

Þá spurði Inga ennfremur, hvort það væri eðlilegt að lækka bankaskatt „á sama tíma og bankarnir hirða milljarða í arð og hækka vextina sína?“

Byrji á staðreyndum áður en farið er í stóryrði

Þá sagði Katrín: „Tölum um staðreyndir, segir háttvirtur þingmaður. Við skulum þá tala um staðreyndir. Engin ríkisstjórn hefur lagt sig meira fram um að halda til haga þeim staðreyndum sem snúa að tekjuþróun í landinu og ég vil bara minna á að hægt er að nálgast þær staðreyndir til að mynda á vefnum tekjusagan.is. Ef háttvirtur þingmaður myndi leggja sig eftir því þá væri svo sannarlega hægt að fara yfir það hvernig jöfnuður hefur þróast á Íslandi. Það vill nú svo til að tekjujöfnuður á Íslandi er mestur meðal OECD-ríkja, bara svo ég haldi staðreyndum til haga, sem háttvirtur þingmaður ræðir hér.“

Katrín sagði einnig, að Seðlabanki Íslands sjái um peningastefnuna í landinu. Sjálfstæði hans væri tryggður í lögum og það hefði verið sérstakt kappsmál Alþingis að tryggja það sjálfstæði. 

„Ef háttvirtur þingmaður kvartar undan framkvæmd peningastefnunnar þá vil ég halda til haga einmitt þeirri staðreynd að vextir hafa ekki verið lægri á lýðveldistímanum og það er svo sannarlega mjög mikilvægt hagsmunamál fyrir almenning. Verið er að beita tækjum peningastefnunnar sömuleiðis til að tryggja gengi krónunnar, þannig að ég held að það sé mikilvægt að við byrjum á staðreyndum áður en við förum í stóryrðin hér,“ sagði forsætisráðherra. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert