Ísland er í annarri stöðu en mörg önnur lönd, allavega þau lönd sem eru í kringum okkur og við berum okkur saman við. Hér eru stýrivextir Seðlabankans enn jákvæðir meðan þeir eru neikvæðir í flestum löndum í kringum okkur. Þá er hér á landi verðbólga sem flest önnur lönd hafa ekki. Vegna þessa er Seðlabankinn með aðra möguleika til að bregðast við ástandinu en aðrir seðlabankar. Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á kynningarfundi um vaxtabreytingu peningastefnunefndar bankans í dag.
Sagði Ásgeir jafnframt að magnbundin íhlutun og framsýn leiðsögn, önnur stýritæki Seðlabankans en vaxtabreyting, væri eitthvað sem yrði þróað eftir að stýrivextir væru komnir í 0%. „Það er nauðsynlegt að hafa þetta í huga þegar Seðlabankinn er borinn saman við aðra seðlabanka,“ bætti Ásgeir við.
Sagðist hann með orðum sínum vera að bregðast við umræðu um Seðlabankann sem hefði verið í gangi undanfarið. Jafnframt sagði Ásgeir að þar sem Ísland væri lítið opið hagkerfi þyrfti að taka mið af gengi krónunnar og gjaldeyrismörkuðum. Frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á hefur gengi krónunnar lækkað um 13%, þar af 9% gegn bandaríkjadal og 15% gagnvart evru, okkar helstu viðskiptamyntum. Sagði Ásgeir að þetta væri „tiltölulega væg lækkun“ miðað við áhrifin sem þetta hefði haft á ferðaþjónustuna og stærð hennar í hagkerfinu.
Þá kom Ásgeir einnig inn á gagnrýni á hvort inngrip Seðlabankans hefðu átt að vera meiri á gjaldeyrismarkaði. Sagði hann að í haust hefði krónan lent undir þrýstingi, sérstaklega frá stórum erlendum aðilum sem væru að losa sig við skuldabréf og fara úr landi. „Í litlu opnu kerfi er ekki hægt að prenta peninga ofan í gjaldeyrismarkað sem er undir þrýstingi. Að láta sér detta í hug að við förum að láta út krónur með annarri hendi til að taka á móti þeim með hinni á gjaldeyrismarkaði, það gengur ekki upp,“ sagði Ásgeir og bætti við að með inngripum sínum væri bankinn að taka fjármagn úr umferð. Inngrip til að setja krónur jafnharðan aftur í umferð og þær eru teknar út væri vonlaus leikur.
Sagði Ásgeir jafnframt að það væri grundvallaratriði peningastefnunefndarinnar að halda stöðuleika á krónunni til að geta farið í hagstjórnarráðgjöf. Sagði hann að nú væri kominn stöðugleiki á krónuna á ný og að hann teldi að hún hefði náð lágpunkti sínum. Erlendir aðilar væru farnir út og að það væri svo komin von á bóluefni sem hlyti að hafa jákvæð áhrif á krónuna.