Ekki nóg gert, en þó skref í rétta átt

Logi Einarsson segir Samfylkinguna hafa lengi lagt til svipaðar aðgerðir …
Logi Einarsson segir Samfylkinguna hafa lengi lagt til svipaðar aðgerðir og ríkisstjórnin kynnti í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir viðspyrnuaðgerðir ríkisstjórnarinnar ekki vera fullnægjandi í heild sinni en þó vera skref í rétta átt. Þá séu þær seint fram komnar.

„Ég er ánægður með að ríkisstjórnin hlusti loksins á þær tillögur sem Samfylkingin hefur verið með frá því í vor,“ segir Logi í samtali við mbl.is.

„Í fyrsta lagi að stigið sé skref til að hækka grunnatvinnuleysisbætur, í öðru lagi að framlengja hlutabótaleiðina og í þriðja lagi að framlengja barnabætur til atvinnulauss fólks, sem Samfylkingin lagði til í vor og var samþykkt.“

Hafa lengi kallað eftir aðgerðum

Samfylkingin hafi þannig lengi verið á því máli að víðtækari aðgerða var þörf. „Þetta eru hlutir sem við erum búin að tala um síðan í vor og höfum lagt fram tillögur á þingi sem ítrekað hefur verið hafnað,“ segir hann.

„Þetta eru skref í rétta átt, en auðvitað hefðu þau mátt koma fyrr.“

Ekki nóg gert enn

Aðspurður segir hann ekki enn vera nóg gert til að takast á við þau efnahagsvandamál sem fylgja veirufaraldrinum.

„En það er að minnsta kosti gott að þau horfi til [tillagna Samfylkingarinnar] núna og feti sig í átt að því sem þarf að gera.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka