Vill lækka álögur og gjöld

Sigmundur Davíð Miðflokkurinn
Sigmundur Davíð Miðflokkurinn mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn heimsfaraldri kórónuveiru hafa verið afar máttlausar. Þetta er meðal þess sem fram kom í ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, á aukalandsþingi Miðflokksins sem haldið var á Zoom í dag. 

„Ríkisstjórnin hefur reglulega haldið glærukynningar til að auglýsa viðbrögð sín við ástandinu hverju sinni. Oft virðist þó meiri vinna hafa verið lögð í sýninguna, umbúðirnar, en tillögurnar sjálfar. Jafnvel hinar stærstu þeirra hafa að engu orðið,“ sagði Sigmundur en tók þó fram að einhverjar aðgerðir hefðu skilað tilætluðum árangri. 

Þá kvaðst hann vilja lækka álögur og gjöld auk þess að fjáfesta í arðbærum verkefnum. „Við munum lækka skatta og gjöld og innleiða jákvæða hvata sem verðlauna vinnusemi og framtak.

Vilja bestu lausnirnar hverju sinni

Sagði Sigmundur nauðsynlegt að grípa til aðgerða í kjölfar faraldursins og þar væri Miðflokkurinn með góðar lausnir. „Á meðan kerfið stjórnar láta margir stjórnmálamenn sér nægja að vera leikarar í leikhúsi ímyndarstjórnmálanna. Þar fer ekki fram rökræða um staðreyndir og lausnir. Áherslan verður á ímynd og tilraunir til að laga eigin ímynd að tíðarandanum en vega að ímynd og persónu annarra,“ sagði Sigmundur og bætti við þörf væri á lausnamiðuðum flokki.

Það verða óvenjulegir tímar í pólitíkinni enn um sinn. En við þær aðstæður er sérstaklega mikilvægt að lausnamiðaður flokkur byggður á skynsemishyggju hafi áhrif. Flokkur sem er reiðubúinn að verja góð gildi og hefur trú á lýðræðinu og hinni endalausu leit að bestu lausnunum hverju sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert