Einn er á gjörgæsludeild Landspítalans vegna Covid-19 og sex liggja á legudeild spítalans vegna veirunnar. Jafnframt eru 4 eða 5 sjúklingar með kórónuveiruna á Landakoti eða alls 11-12 manns. Um er að ræða sjúklinga í einangrun, það er með virkt smit. Fleiri eru enn inniliggjandi eftir að hafa fengið Covid en eru ekki lengur með virkt smit.
Már Kristjánsson, formaður sóttvarnanefndar Landspítalans og yfirlæknir smitsjúkdómadeildar, segir tölur dagsins afar jákvæðar en fimm greindust með Covid-19 innanlands í gær og eru þeir allir í sóttkví. Nú eru jafnmargir í einangrun og í sóttkví á landinu, 205 einstaklingar.
Að sögn Hildigunnar Svavarsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar á Sjúkrahúsinu á Akureyri, er enginn sjúklingur inniliggjandi þar vegna kórónuveirusmits.