Töluverð hætta er á snjóflóðum á utanverðum Tröllaskaga samkvæmt Veðurstofu Íslands. Íbúum í bæjum á svæðinu er ekki talin stafa nein hætta af snjóflóðum þó, einungis fjallagörpum og rjúpnaskyttum sem ætla upp á fjöll og heiðar.
„Nei, nei það er alls engin hætta í bæjum eins og Ólafsfirði og Siglufirði eða neitt slíkt. Við erum bara að vara fólk við sem er á leiðinni upp á fjöll þarna á svæðinu, rjúpnaskyttur fjallaskíðafólk eða svoleiðis,“ sagði sérfræingur á snjóflóðavakt í samtali við mbl.is.
Einhver flóð hafa orðið um helgina að hans sögn og því sé rétt að vara við frekari flóðum á svæðinu. Um 70 mm úrkoma var á Ólafsfirði um helgina og þar féllu einhver smærri flóð á fjallvegi í kringum bæinn.