Frumvarpi til breytinga á sóttvarnalögum hefur nú verið dreift á Alþingi, en frumvarpið var samið af starfshópi sem heilbrigðisráðherra skipaði í september. Var frumvarpið samið í þeim tilgangi að skýra ákvæði laganna um opinberar sóttvarnaráðstafanir á grundvelli fenginnar reynslu af heimsfaraldri kórónuveirunnar.
Fram kemur í greinargerð frumvarpsins að álitsgerð sem dr. juris Páll Hreinsson skilaði 20. september var lögð því til grundvallar ásamt þeirri reynslu sem áunnist hefur hér á landi vegna faraldurs kórónuveirunnar.
Um tilefni og nauðsyn lagasetningar segir meðal annars í greinargerð:
„Tilefni er til að skýra betur þau úrræði sem sóttvarnalæknir og heilbrigðisráðherra geta gripið til vegna hættu á farsóttum til eða frá Íslandi, innanlands og hættu á útbreiðslu smits frá einstaklingum. Þá er talið nauðsynlegt að fara yfir og greina hugtök í lögunum og leggja til breytingar í samræmi við alþjóðaheilbrigðisreglugerð Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og kanna hvort eðlilegt sé að tiltekin atriði í reglugerðum eigi betur heima í löggjöf, svo sem skipting landsins í sóttvarnaumdæmi og ábyrgð yfirlækna heilsugæslu.
Þá er tilefni til að yfirfara verkefni sóttvarnalæknis og sóttvarnaráðs og samræma þau. Nauðsynlegt er talið að innleiða á skýrari hátt ákvæði alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar sem fjalla um almennar sóttvarnir.“
Í greinargerð kemur einnig fram að ákvæðin eins og þau eru lögð til séu í samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Þá er heildarmarkmið frumvarpsins jafnframt að skýra betur þær heimildir sem stjórnvöld hafa til opinberra sóttvarnaráðstafana í samræmi við kröfur lögmætisreglunnar og lagaáskilnaðarreglna stjórnarskrárinnar.
Meginefni frumvarpsins eru breytingar á IV. kafla laganna um opinberar sóttvarnaráðstafanir. Aðrar breytingar eru meðal annars þær að lagt er til að í 1. gr. laganna komi ný málsgrein sem innihaldi orðskýringar. Talið er nauðsynlegt að leggja þetta til þar sem slíkt ákvæði er ekki að finna í núgildandi löggjöf, eftir því er segir í greinargerð.
Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að við upptalningu 3. mgr. 3. gr. laganna bætist skimanir. Þannig verði skimanir hluti af smitsjúkdómaskrá sem sóttvarnalæknir heldur. Í 4. gr. er m.a. lagt til, í samræmi við áðurnefnda álitsgerð, að til að auka skýrleika laganna verði hlutverk sóttvarnalæknis talin upp á einum stað í lögunum. Í 5. gr. er lögð til breyting sem tengist jafnframt tilgangi 4. gr. Þetta er lagt til í þeim tilgangi að skýra frekar hlutverk sóttvarnalæknis annars vegar og hlutverk sóttvarnaráðs hins vegar. Þannig er gert skýrt að sóttvarnaráð sé ráðgjafandi við mótun stefnu í sóttvörnum og að hlutverk þess skarist ekki við hlutverk sóttvarnalæknis.
Í 10. gr. eru lagðar til breytingar á 12. gr. laganna sem fjallar um opinberar sóttvarnaráðstafanir vegna hættu á farsóttum innan lands. Í ákvæðinu er m.a. lagt til að skýrt verði kveðið á um að sóttkví, stöðvun atvinnurekstrar og útgöngubann verði hluti af opinberum sóttvarnaráðstöfunum.
Þá eru lagðar til breytingar í þeim tilgangi að tryggja betur að framkvæmd sóttvarna sé í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Lagt er til í 11. gr. að tiltekin ákvæði alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar sem fjalla um ráðstafanir við komu og brottför milli landa verði innleidd í íslenskan rétt.
Með 12. gr. er lögð til breyting á 14. gr. laganna í samræmi við álitsgerð dr. juris Páls Hreinssonar. Í álitsgerðinni segir m.a. að ástæða sé til þess að ákvæði 14. gr. laganna séu ótvíræð um að þau taki bæði til smitaðra einstaklinga og þeirra sem rökstuddur grunur leikur á að hafi smitast. Jafnframt er málsmeðferð við ákvarðanir um að setja fólk í einangrun eða sóttkví skýrð frekar.