Skora á Menntaskólann við Sund að opna

Menntaskólinn við Sund.
Menntaskólinn við Sund. mbl.is/Árni Sæberg

Hópur foreldra og forráðamanna nemenda úr Menntaskólanum við Sund fer þess á leit við stjórnendur MS að hefja staðnám fram að jólaleyfi. Hópurinn sendi í dag frá sér áskorun undir yfirskriftinni „Erfið staða nemenda“.

Nú mega 25 framhaldsskólanemendur vera saman í hverju rými og hafa einhverjir skólar hafið staðnám á nýjan leik. Aðrir, þar með talið MS, heldur sig við fjarnámið.

„Mikilvægt er að nemendur fái að koma inn í skólann að einhverju marki, nú leyfa aðstæður það en meiri óvissa ríkir um hvernig staðan verður að loknu jólaleyfi. Það gæti breytt miklu til hins betra fyrir marga nemendur að fá að hitta kennara, sjá samnemendur sína og fá það aðhald og hvatningu sem skólaumhverfið færir með staðarnámi. Skólinn er vel í stakk búinn til að taka upp kennslu nú þegar smit hafa gengið niður og ný önn er hafin. Nú er það skólans að sýna að hann sé fremstur meðal jafningja,“ segir í áskoruninni.

Með henni fylgja fjölmargar sögur foreldra af líðan barna sem sinna náminu að heiman. Margir foreldrar tala um að erfitt sé að halda daglegri rútínu, börn einangrist og eigi erfitt uppdráttar.

Ekki sniðið með fjarnám fyrir augum

„Móðir sem hefur lagt áherslu á sjálfstæð vinnubrögð og ábyrgð nemandans á eigin námi les nú yfir öll verkefni til að tryggja lágmarkseinkunn. Henni finnst nóg að horfa upp á andlegt hrun þó að námið fari ekki í vaskinn líka,“ segir í einni frásögninni.

„Aðstæður á heimilum eru margvíslegar en sögurnar hafa flestar það sameiginlegt að börnin skortir skipulag yfir daginn sem staðarnám veitir,“ segir enn fremur í áskoruninni og bent er á að nám í MS sé ekki sniðið að því að vera kennt í fjarnámi:

„Nám í MS var ekki sniðið með það fyrir augum að vera kennt í fjarnámi. Það er neyðarúrræði sem þurfti að beita um stund en nú er lag að skólasamfélag MS komi saman og hefji staðarnám.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert