Ekki hægt að koma í veg fyrir þyrluleysið

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórnin ræddi verkfall flugvirkja á fundi sínum í dag en tók ekki ákvörðun um að setja lög á verkfallið þrátt fyrir að þyrla landhelgisæslunnar verði ekki tiltæk í að minnsta kosti tvo daga í vikunni vegna verkfallsins. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir ekki hægt að koma í veg fyrir það að þyrlan verði ekki til taks. 

„Það er ekki hægt að koma í veg fyrir þessa tvo daga sem þyrlan verður ekki starfandi í vikunni vegna þess að viðhaldsþörfin er orðin uppsöfnuð vegna verkfallsins sem er yfirstandandi,“ sagði Áslaug í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi. 

Hún sagði forgangsverkefni að tryggja að öryggisþjónusta landhelgisgæslunnar sé virk

„Við megum ekki tefla öryggi almennings eða sjófarenda í tvísýnu með því að þyrlurnar séu ekki virkar vegna verkfalls. Við höfum ekki tekið neina ákvörðun um að stíga inn í enda er það mikið og alvarlegt inngrip sem verður ekki gert nema brýna nauðsyn beri til. Við bindum enn vonir við að það náist samningar.“

Þröng staða

Kemur til greina að fá liðsauka frá Dönum ef engar þyrlur verða til taks hér? 

„Við þurfum að leita allra leiða til að tryggja öryggi, já,“ sagði Áslaug. 

„Við skoðuðum bara allt sem er á borðinu og það eru nokkrir valkostir í þeirri stöðu en staðan okkar er samt afskaplega þröng þar sem landhelgisgæslan hefur sinnt mjög mikilvægri þyrlubjörgun á Norður-Atlantshafi og við þurfum auðvitað að tryggja að svo verði áfram.“

Áslaug benti á að lög kveði á um að að verkfallsréttur eigi ekki að vera fyrir þá sem gætu komið í veg fyrir björgun og þjónustu landhelgisgæslunnar. 

„Þegar lögin um verkfallsrétt þessara flugvirkja eru skoðuð þá er það talsvert ósamrýmt markmiði löggjafans þegar þau lög voru sett þar sem kveðið var á um það að verkfallsréttur ætti ekki að vera fyrir þá sem gætu komið í veg fyrir eðlilega björgun og þjónustu landhelgisgæslunnar,“ sagði Áslaug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert